Vignir Svavarsson kemur heim í Hauka í sumar

Línumaðurinn og varnarsérfræðingurinn Vignir Svavarsson mun leika með Haukum á næsta tímabili. Vignir lék síðast í Haukatreyju veturinn 2004-2005 og kvaddi Ásvelli með Íslandsmeistarartitli vorið 2005 áður en hann hélt út í atvinnumennskuna. Hann hóf atvinnumannaferil sinn hjá Skjern í Danmörku þar sem hann lék við góðan orðstýr í þrjú tímabil áður en að leiðin lá yfir landamærin til Þýskalands þar sem hann lék í þýsku úrvalsdeildinni með Lemgo þar sem hann vann EHF-bikarinn, Hannover Burgdorf og Minden. Eftir rúman áratug í þýska handboltanum snéri Vignir ásamt fjölskyldu aftur til Danmerkur þar sem hann spilaði með HC Midtjylland og varð danskur bikarmeistari á sínu fyrsta tímabili. Undanfarin þrjú ár hefur hann verið einn af burðarásum Team Tvis Holstebro í dönsku úrvalsdeildinni og m.a bætt öðrum dönskum bikarmeistaratitli í safnið.

Vignir var fastamaður í íslenska landsliðinu þar til fyrir skemmstu að hann lagði landsliðsskóna á hilluna og spilaði hann 234 landsleiki fyrir Íslands hönd og var m.a hluti af bronsverðlaunaliði Íslands á EM í Austuríki árið 2010.

“Það kom aldrei annað til greina en að koma heim til Hauka og klára ferilinn hjá uppeldisfélaginu mínu segir Vignir í samtali við Haukar Topphandbolti.  Ég vil miðla minni reynslu til yngri leikmanna og leggja mitt af mörkum til að vinna titla með Haukum. Ég hlakka mikið til að klæðast Haukatreyjunni á ný og hitta allt fólkið á Ásvöllum”