Ágrip af sögunni

Upphafið

Það var sunnudaginn 12. apríl 1931 að 13 ungir piltar komu saman í KFUM húsinu við Hverfisgötu til að stofna nýtt íþróttafélag hér í bænum. Fyrsti formaður félagsins var kjörinn Karl Auðunsson.
Á þriðja fundi  félagsins var nafn þess ákveðið, Knattspyrnufélagið Haukar. Það var séra Friðrik Friðriksson sem átti hugmyndina að nafninu sem er viss skírskotun til bræðrafélagsins Vals í Reykjavík.

Stofnendur

Eftirtaldir voru stofnendur félagsins: Óskar Gíslason, Karl Auðunsson, Jens Sveinsson, Þórður Guðbjörnsson, Jóhannes Einarsson, Helgi Vilhjálmsson, Sigurgeir Guðmundsson, Magnús Kjartansson, Jón Halldórsson, Bjarni Sveinsson, Hallgrímur Steingrímsson, Sófus Berthelsen og Geir Jóelsson.

Vallargerð

Ekki blés byrleg í upphafi hvað varðar æfingaaðstöðu. Á Hvaleyrarholtsvelli æfðu m.a. liðsmenn Þjálfa. Þeir höfðu lítinn áhuga á strákunum í Haukum og meinuðu þeim vallarins. Eftir að hafa skoðað aðstæður víða í bæjarlandinu var ákveðið að hefjast handa við vallargerð í Hraunsholti í Garðahreppi – stutt frá þeim stað sem íþróttahús Garðbæinga stendur í dag. Vígsla vallarins fór fram sunnudaginn 7. júlí 1931.