L Ö G
KNATTSPYRNUFÉLAGSINS HAUKA
1 HEITI FÉLAGINS, HEIMILI, TILGANGUR OG FÉLAGSFORM.
1.01. Félagið heitir Knattspyrnufélagið Haukar.
1.02. Félagið er íþróttafélag og lýtur þeim reglum sem gilda um almenn félög og sjálfeignarstofnanir. Í nafni félagsins starfa sjálfstæðar deildir, sem sameinast í aðalstjórn félagsins. Einstaklingar geta einungis orðið félagar í gegnum íþrótta- eða félagsdeild sem rekin er í nafni félagsins.
1.03. Heimili félagsins er að Ásvöllum í Hafnarfirði.
1.04. Tilgangur félagsins er að vera vettvangur fyrir alhliða íþróttastarf, með því að iðka sem flestar íþróttagreinar og glæða áhuga almennings á gildi íþrótta.
2 FÉLAGIÐ OG FÉLAGSMENN
2.01. Merki félagsins er skjöldur, en ofan á skildinum er knöttur. Skáhallt og bogið yfir skjöldinn stendur HAUKAR. Litir í merki félagsins eru fjórir. Rauður grunnur með blárri umgjörð, brúnum knetti og hvítum stöfum, ásamt röndum er aðskilja fletina í merki félagsins.
2.02. Keppnis- og æfingabúningar íþróttadeilda félagsins skulu taka mið af litum í merki félagsins. Aðalbúningur félagsins skal þó ætlið vera rauð peysa og rauðar buxur.
2.03. Félagi getur hver sá orðið sem æskir þess, enda sé hann skráður sem félagi eða iðkandi í einhverja af deildum félagsins. Heimilt er að skrá sig í fleiri en eina íþróttadeild.
2.04. Úrsögn úr félaginu skal beint til stjórnar viðkomandi deildar innan félagsins.
2.05. Þeir félagar, sem eru eldri en 20 ára og sem falla af iðkendaskrá viðkomandi íþróttadeildar skulu sjálfkrafa verða skráðir í félagsdeild.
2.06. Aðalstjórn félagsins getur kosið tiltekinn félagsmann sem heiðurfélaga. Slíka tilnefningu skal samþykkja með samþykki 2/3 hluta fundarins. Heiðurfélagar eru undanþegnir greiðslu á félagsgjöldum. Heiðursfélagar skulu að öllu jöfnu ekki vera fleiri en fimmtán.
2.07. Aðalstjórn félagsins getur ákveðið að tilteknum félagsmönnum séu veitt eftirfarandi heiðursmerki.
- Gullstjarna Hauka fyrir langt og frábært starf í þágu félagsins.
- Silfurstjarna Hauka fyrir frábært starf í þágu félagsins.
- Gullpeningur Hauka fyrir 20 ára frábært starf eða keppni í þágu félagsins.
- Silfurpeningur Hauka fyrir 10 ára frábært starf eða keppni í þágu félagsins.
- Haukasjöldur með lárviðarsveig fyrir gott starf í þágu félagsins eða sérstakan árangur í keppni.
2.08. Félagsmenn og íþróttadeildir skulu lúta lögum félagsins, sem og lögum heildarsamtaka íþróttahreyfingarinnar.
2.09. Félagsmenn bera ekki ábyrgð á skuldbindingum félagsins, nema þeir taki á sig slíka ábyrgð með sérstökum löggerningi. Þessu ákvæði verður ekki breytt né það fellt niður með neinum ályktunum félagsfundar.
3 STJÓRNSKIPULAG FÉLAGSINS
3.01. Með stjórn félagsins fara;
- a) Aðalfundur félagsins.
- b) Aðalstjórn félagsins.
3.02. Aðalstjórn hefur æðsta vald í málefnum félagsins milli aðalfunda.
3.03. Innan félagsins starfa sjálfstæðar íþrótta- og félagsdeildir, sem lúta lögum þessum.
3.04. Aðalststjórn er heimilt að stofna eða eiga hlut í rekstrarfélögum vegna tiltekinna verkefna, þar á meðal vegna reksturs meistaraflokka á vegum félagsins. Gera skal samning við slík rekstrarfélög um verkefni, eftirlit og önnur atriði sem varða Hauka.
4 AÐALFUNDUR FÉLAGSINS
4.01. Æðsta vald í sameiginlegum málefnum félagsins, innan þeirra takmarka, sem lög þessi og lög íþróttahreyfingarinnar setja, er í höndum lögmætra aðalfunda.
4.02. Aðalfund félagsins skal halda fyrir lok maí ár hvert.
4.03. Á aðalfundi skulu þessi mál tekin fyrir:
1) Kosning fundarstjóra og fundarritara.
2) Ákvörðun um lögmæti fundarins.
3) Skýrsla stjórnar félagsins um starfsemi þess síðastliðið starfsár.
4) Reikningar félagsins fyrir liðið starfsár, ásamt athugasemdum skoðunarmanna, skal lagður fram til samþykktar.
5) Tillögur um lagabreytingar, sem löglega eru fram bornar.
6) Kosning stjórnar félagsins. Fyrst skal kosinn formaður, síðan aðrir stjórnarmenn og loks varamenn, ef einhverjir eru.
7) Kosning skoðunarmanna félagsins.
8) Önnur mál, sem löglega eru upp borin.
4.04. Ef 1/3 hluti félagsmanna krefst þess skriflega á aðalfundi skal fresta ákvörðunum um málefni þau, sem greinir í 4. tl. greinar 4.03, til framhaldsaðalfundar sem haldinn skal í fyrsta lagi einum mánuði og í síðasta lagi tveimur mánuðum síðar. Frekari frests er ekki unnt að krefjast.
4.05. Stjórn félagsins skal boða til félagsfunda þegar hún telur þess þörf eða þegar yfir 100 félagsmenn krefjast þess skriflega með tilvísun í fundarefni. Þegar lögmæt krafa um fundarhald er fram komin skal stjórninni skylt að boða til fundar innan 14 daga frá því er henni barst krafan.
4.06. Til félagsfunda skal boða með auglýsingu í víðlesnu dagblaði eða með auglýsingu í fréttablaði sem berst í öll hús í Hafnarfirði. Fundir skulu boðaðir með minnst viku fyrirvara.
4.07. Viku fyrir félagsfund hið skemmsta skal dagskrá, endanlegar tillögur, svo og reikningar fyrir aðalstjórn og deildir félagsins, skýrsla stjórnar og skýrsla skoðunarmanna, liggja frammi á skrifstofu félagsins. Mál, sem hafa ekki verið greind í dagskrá fundar, er ekki unnt að taka til endanlegrar úrlausnar á fundinum nema með samþykki allra fundarmanna, en gera má um þau ályktun til leiðbeiningar fyrir félagsstjórn. Löglega frambornar viðauka- og breytingartillögur má bera upp á fundinum sjálfum.
4.08. Félagsfundum stjórnar fundarstjóri sem fundurinn kýs. Fundarstjóri skal leysa úr öllum atriðum sem snerta lögmæti fundarins samkvæmt lögum þessum, ákveður form umræðna, meðferð málefna á fundinum og atkvæðagreiðslur.
4.09. Fundarstjóri skal láta kjósa fundarritara, sem heldur fundargerðarbók. Í fundargerðabók skal skrá ákvarðanir félagsfundar ásamt úrslitum atkvæðagreiðslna. Sé þess óskað af fundarmönnum skal fundargerð lesin upphátt fyrir fundarlok og skrá þar athugasemdir ef fram koma. Fundarstjóri og fundarritari skulu undirrita fundargerðabók. Í síðasta lagi fjórtán dögum eftir félagsfund skulu félagsmenn eiga aðgang að fundargerðabók eða staðfestu endurriti fundargerða á skrifstofu félagsins.
4.10. Félagsfundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað.
4.11. Rétt til setu á félagsfundum hafa allir skuldlausir félagsmenn og hafa þeir fullt málfrelsi og tillögurétt. Meirihluti atkvæða ræður úrslitum allra mála, nema annað sé ákveðið í lögum þessum eða almennum reglum íþróttahreyfingarinnar. Tillaga fellur á jöfnum atkvæðum. Ef tveir menn eða fleiri fá jafnmörg atkvæði við kosningu, skal hlutkesti ráða.
4.12. Atkvæðisréttur, á aðalfundum félagsins og á öðrum félagsfundum þar sem fram fer kjör til stjórnar félagsins, er í höndum fulltrúa deilda félagsins sem kosnir eru samkvæmt grein 8.05 og aðalstjórn félagsins. Hver fulltrúi getur aðeins farið með eitt atkvæði.
5 STJÓRN FÉLAGSINS
5.01. Aðalfundur félagsins kýs árlega 11 menn í stjórn félagsins. Þar af skulu formaður, varaformaður og gjaldkeri félagsins kosnir sérstaklega. Aðrir stjórnarmenn skulu kosnir samkvæmt tilnefningu frá félagsdeildum, þannig að handknattleiksdeild, körfuknattleiksdeild og knattspyrnudeild tilnefna tvo aðalstjórnarmenn hver deild. Karatedeild félagsins tilnefnir einn menn í aðalstjórn. Aðrar deildir félagsins tilefna sameiginlega einn mann. Allir sem eru sjálfráða eru hæfir til setu í stjórn félagsins.
5.02. Aðalstjórn hefur æðsta vald í málefnum félagsins milli aðalfunda.
5.03. Rétt til setu á stjórnarfundum í félaginu hefur formaður félagsráðs eða staðgengill hans hverju sinni. Fulltrúi félagsráðs hefur málfrelsi, tillögurétt og atkvæðisrétt á stjórnarfundum.
5.04. Formaður félagsins boðar til funda og stýrir fundum. Fundi skal halda hvenær sem hann telur þess þörf. Formanni er auk þess skylt að boða stjórnarfund að kröfu eins stjórnarmanns eða framkvæmdastjóra.
5.05. Stjórnarfundur er ákvörðunarbær þegar meirihluti stjórnarmanna sækir hann. Mikilvæga ákvörðun má þó ekki taka án þess að allir stjórnarmenn hafi haft tök á því að fjalla um málið, sé þess kostur. Afl atkvæða ræður úrslitum, nema öðruvísi sé fyrir mælt í lögum þessum eða lögmætum fyrirmælum. Stjórnin skal halda gerðarbók um það sem gerist á stjórnarfundum og staðfesta hana með undirskrift sinni.
5.06. Stjórnarmenn skulu hafa aðgang að öllum bókum og skjölum félagsins.
5.07. Undirskrift meirihluta stjórnarmanna þarf til að skuldbinda félagið. Mikilvægar ákvarðanir, svo sem kaup og sala fasteigna og sambærilegar fjárfestingar má þó ekki taka nema allir stjórnarmenn hafi haft tök á að fjalla um málið.
5.08. Stjórn félagsins er heimilt að skipa nefndir til að sinna ákveðnum verkefnum eftir því sem þurfa þykir hverju sinni. Ætíð skal skipaður formaður í viðkomandi nefnd og skal hann bera ábyrgð á boðun funda í nefndinni og að hafa samskipti við aðalstjórn. Umboð allra nefnda fellur niður á aðalfundi félagsins og skulu nefndir endurkosnar á fyrsta fundi nýskipaðrar stjórnar.
6 REKSTUR FÉLAGSINS OG FRAMKVÆMDASTJÓRN
6.01. Aðalstjórn ber ábyrgð á því að rekstur félagsins sé í eðlilegum farvegi og í samræmi við þær skuldbindingar sem félagið hefur gengist undir. Meginskyldustörf aðalstjórnar eru:
1) Að ákveða fyrirkomulag á daglegum rekstri félagsins og ráða til þess starfsmenn eftir því sem þörf er á.
2) Að hafa stöðugt og ítarlegt eftirlit með öllum rekstri félagsins og sjá um að skipulag þess og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi.
3) Að sjá til þess að bókhald félagsins sé fært í samræmi við lög og venjur
4) Að annast um að nægilegt eftirlit sé haft með meðferð fjármuna félagsins og að meðferð eigna félagsins sé með tryggilegum hætti.
5) Að koma fram fyrir félagsins hönd fyrir dómstólum og stjórnvöldum.
6) Að skera úr ágreiningi, sem upp kann að koma innan félagsins.
7) Að ákveða hver eða hverjir skuli skuldbinda félagið.
6.02. Aðalstjórn skal ráða framkvæmdastjóra eða skipa sérstaka framkvæmdastjórn, sem annast daglegan rekstur félagsins. Framkvæmdastjórn skal vera eftir skipuriti sem samþykkt er af aðalstjórn og þeirri stefnu og fyrirmælum sem stjórn félagsins hefur gefið. Almennar reglur gilda um stöðuumboð og ráðstafanir framkvæmdastjórnar.
6.03. Ráðstafanir sem eru óvenjulegar eða mikilsháttar er aðeins hægt að gera samkvæmt sérstakri heimild frá aðalstjórn félagsins.
- REIKNINGAR FÉLAGSINS
7.01. Reikningsár félagsins er almanaksárið. Á hverju reikningsári skal semja ársreikning félagsins.
7.02. Á aðalfundi félagsins skal kjósa tvo skoðunarmenn fyrir félagið til eins árs í senn. Ekki má velja skoðunarmenn úr hópi stjórnarmanna eða starfsmanna félagsins. Forfallist kjörinn skoðunarmaður skal stjórn skipa nýjan skoðunarmann til bráðabirgða.
7.03. Skoðunarmenn skulu fara yfir allt reikningshald félagsins og allra deilda og í því sambandi kanna bókhaldsgögn og aðra þætti er varða fjárhagsstöðu og rekstur þess og er þeim jafnan heimill aðgangur að öllum bókum þess og skjölum.
7.04. Skoðunarmenn skulu hafa lokið skoðun ársreiknings eigi síðar en fjórtán dögum fyrir aðalfund. Ber þeim þá að senda ársreikning til stjórnar félagsins, ásamt athugasemdum sínum. Í síðasta lagi einni viku fyrir aðalfund skal stjórn félagsins hafa samið svör sín við athugasemdum skoðunarmanna og skulu þau og athugasemdirnar liggja félögum til sýnis ásamt ársreikningi, a.m.k. viku fyrir aðalfund.
- ÍÞRÓTTA- OG FÉLAGSDEILDIR.
8.01. Innan félagsins starfa sjálfstæðar íþrótta- eða félagadeildir, sem annast nánar tilgreindan hóp iðkenda. Innan deilda er heimilt að skipa ráð sem annast tiltekna hluta starfssins, svo sem barna- og unglingaráð og meistaraflokksráð karla og kvenna. Stjórn deildar skipar í ráð, en eftir atvikum í samráði við aðra sem málið varðar.
8.02. Deildum og ráðum er óheimilt að stofna til fjárhagslegra skuldbindinga. Öll fjármálaumsýslu Hauka skal fara fram í á vegum aðalstjórnar eða eftir atvikum í rekstrarfélögum.
Bráðabirgðaákvæði: „Til loka árs 2012 er deildum er heimilt, kjósi þær svo, að hafa að hafa umsjón og umsýslu með unglingastarfi deildarinnar, svo sem verið hefur.“
8.03. Með stjórn íþrótta- eða félagsdeildar fara;
- a) Aðalfundur viðkomandi deildar.
- b) Stjórn viðkomandi deildar.
- c) Formaður viðkomandi deildar.
8.04. Aðalfundi íþrótta- og félagsdeilda skal halda eigi síðar en viku fyrir aðalfund félagsins. Á aðalfundi deilda skulu eftirtalin málefni tekin fyrir.
1) Skýrsla stjórnar deildarinnar um starfsemi þess síðastliðið starfsár.
2) Kosning stjórnar deildarinnar. Fyrst skal kosinn formaður, síðan aðrir stjórnarmenn.
3) Tilnefning stjórnarmanna í aðalstjórn félagsins.
4) Val fulltrúa á aðalfund félagsins.
5) Önnur mál, sem löglega eru upp borin.
8.05. Deildir félagsins skulu velja allt að þrjátíu fulltrúa á aðalfund félagsins. Íþróttadeildir geta tilnefnt varamenn fyrir þessa fulltrúa eftir því sem þurfa þykir hverju sinni. Sama gildir um aðra félagsfundi þar sem fram fer kosning stjórnar.
8.06. Atkvæðisrétt á aðalfundi deilda hafa allir meðlimir viðkomandi deildar, 14 ára og eldri. Félagsfundir deilda eru lögmætur ef löglega er til þeirra boðað.
8.07. Stjórnir íþróttadeilda skulu hver á sínu sviði vinna að eflingu sinnar íþróttagreinar og skulu jafnframt tilnefna fulltrúa í sérsambönd og sérgreinaráð íþróttahreyfingarinnar eftir því sem við á hverju sinni. Stjórnir deilda skulu ákveða félags- eða iðkendagjald í viðkomandi deild.
8.08. Innan félagsins skal starfa a.m.k. ein félagsdeild, þar sem almennir félagsmenn sem ekki eru meðlimir í einstökum íþróttadeildum geta haft vettvang til að starfa fyrir félagið.
8.09. Aðalstjórn skal sjá um stofnun nýrra deilda. Stofnfundur skal fara fram samkvæmt aðalfundareglum deildanna eftir því sem við á.
8.10. Komi til þess að stjórn íþróttadeildar hætti störfum án þess að ný stjórn sé kjörin skal aðalstjórn taka málið til upp á stjórnarfundi og ákveða hvort reynt verði að finna nýja stjórn fyrir deildina eða leggja hana niður. Verði ákveðið að leggja deildina niður skal aðalstjórn ákveða hvort hún yfirtekur réttindi og skyldur viðkomandi deildar.
8.11. Reglur 5., 6. og 7. kafla laga þessa skulu gilda um starfsemi deilda eftir því sem við á hverju sinni.
- BREYTINGAR Á LÖGUM FÉLAGSINS
9.01. Lögum félagsins má breyta á löglega boðuðum aðalfundi félagsins, enda sé þess rækilega getið í fundarboði, að slíkar breytingar séu fyrirhugaðar og í hverju þær felist í meginatriðum. Með breytingunni þurfa að greiða atkvæði a.m.k. 2/3 hlutar greiddra atkvæða á fundinum.
Lög þessi voru samþykkt á aðalfundi félagsins sem haldinn var 27. mars 2008, og eru öll eldri lög úr gildi numin.