Skipta knatthús miklu máli til að ná árangri?

Í haust ákvað einn haukafélagi að taka saman tölfræði yfir árangur 2. og 3. flokks liða á Íslandi til að geta séð betur hvert mikilvægi knatthúsa er til þess að ná árangri.
Niðurstöðurnar voru í grófum dráttum þessar.

2. flokkur karla – 4 af 5 efstu með knatthús.
3. flokkur karla – 7 af efstu 10 liðunum á listanum eru öll með knatthús
2. flokkur kvenna – 4 af 5 efstu liðum í hjá stelpunum eru með knatthús.
3. flokkur kvenna – 7 af 10 efstu eru með aðgang að knatthúsi.

Það má leiða líkum að því að talsvert meira sé að marka tölurnar fyrir 3. flokk frekar en 2. flokk þar sem þegar krakkar eru orðin gjaldgeng í þann síðarnefnda er talsvert um að þau efnilegustu séu að færa sig yfir í stærri liðin.
3. flokki eru í langflestum tilfellum eingöngu uppaldir leikmenn að spila með liðunum.
Það er því nokkuð ljóst að knatthúsin spila stóra rullu í árangri svo ég tali nú ekki um ef að það er jafn mikill aðstöðumunur á milli tveggja félaga sem eru í 5 mínútna fjarlægð frá hvoru öðru eins og er með Hauka og FH.

Eins og sást í tölunum sem Karl Gudmundsson birti fyrir viku sést vel hvað gerist varðandi fjölda iðkenda hjá félögunum þegar annað félagið er með 3 hús og hitt ekkert.
Á þessum lista í 3. flokki karla þá eru þessi þrú lið sem ekki eru með knatthús Stjarnan, KR og Fylkir öll talsvert frá næsta félagi sem að eru með knatthús og þar af leiðandi hefur það ekki sömu áhrif á þau og Hauka að hafa ekki knatthús upp á fjölda iðkenda.
Sama má segja um Val, Víking og Stjörnuna hjá 3. flokki kvenna og þar var Víkingur reyndar oft á tíðum með sameiginlegt lið með HK.
Svo eru að ég held þessi bæjarfélög ekki að bjóða upp á að keyra iðkendur með Frístundarbíl í annað hverfi.

Ef við skoðum svo veðrið sem hefur nú talsverð áhrif á æfingar yfir vetrartímann sérstaklega.

Í sömu samantekt voru skoðuð gögn frá veðurstofunni yfir ýmsa þætti á höfuðborgarsvæðinu og tekin vour 3 síðustu árin.

Þar má sjá að í meðalári eru 69 dagar þar sem vindurinn fer yfir 10 metra á sekúndu, 93 þar sem hiti fer undir frostmark og 78 þar sem það snjóar eða kemur slydda á einhverjum tímapunkti.
Svona lagað takmarkar hvað iðkendur eru að fá út úr æfingunum sínum yfir háveturinn.

Má ætla að a.m.k. 3 mánuði á ári eru iðkendur sem geta æft innandyra að ná framförum sem ekki er hægt að ná utandyra á sama tíma.
Ef við tökum tvo iðkendur sem byrja að æfa 6 ára gamlir, einn sem æfir innandyra yfir háveturinn og annann sem æfir utandyra allt árið.
Þegar þessir iðkendur hafa náð 18 ára aldri má gera ráð fyrir að sá sem æfir innandyra hafi náð 3ja ára forskoti á hinn sökum þess að 3 mánuði á ári er þessi utandyra ekki að fá mikið út úr sínum æfingum.

Við vonum svo sannarlega að bæjarstjórn Hafnarfjarðar leggi áherslu á að fé verði sett í framkvæmdir á knatthúsi Hauka fyrir næsta ár svo hægt verði að hefjast handa 2020 og vonandi hefja æfingar á stórafmælinu 2021 og fullklára húsið 2024.

Þetta er gríðarlegt hagsmunamál fyrir félagið og iðkendur þess eins og þessar tölur gefa til kynna.
í mínum huga er mikilvægi þess að fá knatthús á Ásvelli sem allra fyrst virkilega mikið.

Það er ekki nema skammtíamalausn að leigja tíma í Kaplakrika enda eru fólk ekki að skrá börnin sín í Hauka til að þau séu að æfa í hinum enda bæjarins stóra hluta af árinu.