Yfirburðir Hauka B halda áfram

Haukar B fengu KFÍ B í heimsókn á laugardaginn í annari umferð B liða keppni karla. Haukar B sigruðu auðveldlega 85-61.
 
KFÍ B átti aldrei möguleika og voru Haukar B komnir í 8-1 eftir einungis 60 sek.. Haukar B voru full gjafmildir á villurnar í byrjun leiks og komu fyrstu 7 stig KFÍ B öll úr vítaskotum. Það dugði þó ekki til að koma KFÍ B inn í leikinn og var staðan 30-17 fyrir Hauka B eftir fyrsta leikhlutann.
Haukar B héldu áfram að gefa í í öðrum leikhluta og hættu að hleypa KFÍ B svona mikið á línuna og voru með yfirburða stöðu í hálfleik, 53-24.
KFÍ B mættu ákveðnir til leiks í seinni hálfleik og skiptu yfir í svæðisvörn sem virkaði vel hjá þeim og yfirspiluðu þeir Hauka B 9-0 á upphafs mínútum þriðja leikhluta. Emil Örn Sigurðarson tók það í sínar hendur að slökkva í KFÍ mönnum með eitruðum þrist sem kveikti einnig aldeilis í Elvari Steini Traustasyni. KFÍ B réðu ekkert við hann og skoraði Elvar 15 stig í röð og þar af úr öllum 7 vítaskotum sínum.
Það vill svo oft verða þannig að þegar menn eru með örugga forustu að ákafinn detti niður, sem gerðist hjá Haukum B. Eftir þriðja leikhlutann voru þeir ennþá 29 stigum yfir en í stað þess að klára leikinn af ákveðni þá tók við svefnleysi í vörninni, kæruleysislegar sendingar og illa ígrunduð skot í sókninni. Það kom þó ekki að sök og KFÍ B náði aðeins að laga stöðuna um 5 stig og því um mjög öruggan 85-61 sigur hjá Haukum B.
„Það er ekki mikið hægt að kvarta undan því að vera búinn að vinna fyrstu tvo leikina með 34 stiga mun að meðaltali en í báðum leikjunum höfum við gefið mikið eftir í seinni hálfleik, og þá sérstaklega í fjórða leikhluta. Við höfðum getað unnum báða þessa leiki með 50 stiga mun ef við hefðum haldið einbeitingunni út 40 mínúturnar í staðinn fyrir bara 20-30 mínútur.“
 
Sagði fyrirliði Hauka B að leikslokum og bætti við:
 
„En þetta er eitthvað sem við getum auðveldlega lagað og ætlum við okkur klárlega að halda áfram á þessari sigurbraut.“ 
Stigahæstir hjá Haukum B voru Elvar Steinn Traustason með 35 stig og næstur honum kom Emil Örn Sigurðarson með 16 stig.