Vorferð öldungaráðs

Vestmannaeyjar skörtuðu sínu fegursta

Hann var eftirvæntingarfullur 35 manna hópur félaga úr Öldungaráði Hauka sem lagði upp í óvissuferð sl. fimmtudag héðan frá Ásvöllum. Sólin  að brjótast út  úr skýjaþykkni á austurhimninum á þessum fimmtudagsmorgni sem gaf fyrirheit um góðan dag.

Ekin var Krísuvíkurleið og Suðurstrandarvegur í sveitir Suðurlands með áningu og skemmtilegum fróðleikskornum fyrrum formanns félagsins, Eiríks Skarphéðinssonar.

Ekki leist nú öllum á að fara eina ferðina enn á fornar slóðir sem allir höfðu margsinnis farið á langri ævi – því lyftist brúnin þegar ekið var niður með Markarfljóti að Landeyjarhöfn þar sem Herjólfur beið hópsins. Eftir þægilega sjóferð tóku Vestmanneyjar í sínu fegursta skarti á móti hópnum. Skoðaðir voru áhugaverðir staðir, m.a. Skansinn  og stafkirkjan norska þar sem Árni Johnsen fór á kostum.

Á heimleiðinni var staldrað við í Vatnsholti í Flóa þar sem fram var borinn girnilegur kvöldverður. Það voru þreyttir en ánægðir ferðalangar sem óku í hlað á ellefta tímanum eftir vel heppnaða óvissuferð í þægilegri bifreið Hópbíla þar sem enn einn fyrrum formaður félagsins, Steinþór Einarsson,  hélt um stýrið styrkri hendi.

 

 

 Öldungaráðið skemmti sér vel