Verða Haukastelpur deildarmeistarar á laugardag?

Hanna Guðrún StefánsdóttirNú fer að styttast í lok N1 deildar kvenna í handbolta en næst síðasti leikur Haukastúlkna fer fram á laugardaginn en þá munu þær mæta liði FH á Ásvöllum. Eins og staðan er núna eru Haukastelpur í efsta sæti deildarinnar með 34 stig en í öðru sæti er lið Stjörnunnar með 32 stig. Þessi tvö lið eru einu liðin sem möguleika eiga á deildarmeistaratitli í ár en lið Vals er í þriðja sæti með 27 stig, og aðeins fjögur stig eftir í pottinum.

Þó svo fjögur stig séu eftir í pottinum og munurinn á Haukum og Stjörnunni tvö stig geta Haukastúlkur tryggt sér deildarmeistaratitilinn með sigri á FH á laugardag, þó svo Stjarnan geti jafnað Hauka að stigum.

 

Samkvæmt reglum HSÍ um deidarmeistara vinnur það lið sem hlýtur flest stig í deildarkeppni. Séu tvö lið jöfn að stigum er það stigafjöldi í innbyrðis leikjum liðanna sem gildir. Haukar og Stjarnan hafa mæst þrisvar sinnum í  í N1 deildinni vetur en Haukar hafa sigrað tvo leiki á meðan Stjarnan hefur einungis unnið einn. Það þýðir að í innbyrðis leikjum hafa Haukar hlotið 4 stig en Stjarnan 2 stig. Þar af leiðandi verða Haukar deildarmeistarar verði liðin jöfn að stigum í lok móts.

 

Leikurinn á laugardaginn hefst klukkan 16:00 og hvetjum við fólk til að mæta á leikinn og styðja sitt lið til sigurs. Við munum fjalla betur um leikinn í vikunni og birta viðtöl við leikmenn.