Verða Haukar deildarmeistarar í kvöld?

HaukarFjórir hörkuleikir fara fram í N1-deild karla í handknattleik í kvöld. Baráttan er hörð um að fylgja Haukum í úrslitakeppnina en Akureyri, HK, Valur og FH slást um þrjú sæti í úrslitakeppninni. Þá er fallbaráttan hörð þar sem Fram, Stjarnan og Grótta eru í baráttunni.

Haukar geta tryggt sér deildarmeistaratitilinn takist þeim að ná stigi gegn HK en liðin eigast við í Digranesi. HK-ingar ætla sér örugglega að endurtaka leikinn frá því fyrir jól en þá unnu þeir Íslandsmeistarana með sex marka mun, 26:19.

Akureyringar, sem eru í öðru sæti, sækja Valsmenn heim og þar má reika með hörkuleik. Akureyri hefur 22 stig en Valur 21 en Akureyringar hafa farið illa að ráði sínu í síðustu tveimur leikjum þar sem þeir töpuðu fyrir Gróttu og Fram. Valsmenn fögnuðu hins vegar góðum sigri á Haukum á Ásvöllum í síðustu umferð.

FH-ingar sækja Framara heim í Safamýrið og þar má hvorugt liðið við að tapa stigum. FH er í fimmta sætinu með 19 stig en Framarar á botninum með 11 stig. FH hefur tapað þremur leikjum í röð en Framara hafa verið á góðu skriði síðustu vikurnar og unnu góðan útisigur á Akureyri í síðustu umferð. Liðin hafa unnið sinn hvorn leikinn í vetur með eins marks mun.

Sannkallaður fallbaráttuslagur verður á Seltjarnarnesi þar sem Grótta og Stjarnan eigast við. Grótta hefur 12 stig í sjötta sæti en Stjarnan er í 7. sæti með 11 stig. Gróttumenn undir stjórn Geirs Sveinssonar hafa unnið tvo leiki í röð og það hafa Stjörnumenn gert líka undir stjórn Patreks Jóhannssonar svo það verður hart barist á fjölum íþróttahússins á Nesinu í kvöld.

Leikir kvöldsins eru:
18.30 Valur – Akureyri
19.30 HK – Haukar
19.30 Fram – FH
19.30 Grótta – Stjarnan

 

tekið af: MBL.IS