Vel heppnuð vorferð Öldungaráðs – myndir fylgja

Haukar

Sl. miðvikudag  lagði fríður 45 manna hópur land undir fót  á vit hins óþekkta. Öldungaráð Hauka  í óvissuferð undir stjórn  tveggja fyrrum formanna félagsins, Eiríks Skarphéðinssonar og Steinþórs Einarssonar. 

Fyrst var haldið í hina glæsilegu Hellisheiðarvirkjun þar sem Helgi P tók á móti hópnum og hélt fróðlegt erindi um hvíta gullið. Síðan var ekin Nesjavallaleið og áð við Brúará í sumarhöll Lúðvíks Geirssonar,  fyrrum formanns og fjölskyldu hans.

Þar var boðið upp á  rjómavöfflur og smurt brauð  og  glæsilegs útsýnis notið. Eftir góða áningu var ekið að gróðrarstöðinni Friðheimum í Biskupstungum þar sem ótrúlegt blómahaf blasti við augum. Hér steig um borð Jóhannes bóndi í Syðra-Langholti  sem skemmti mönnum með gamanmáli og snjöllum héraðslýsingum..

Nú var farið að líða að seinni hluta ferðarinnar og ekið að höfuðkirkjunni Skálholti þar sem boðið var til kvöldverðar.  Það voru þreyttir en ánægðir ferðalangar sem renndu í hlað á Ásvöllum um kl. 21.