Vélin hikstaði en malaði svo eins og köttur

Elías Már Halldórsson var öflugur í gærkvöldi og var markahæstur með 8 mörkEftir langt hlé í Olísdeild karla þá byrjuðu strákarnir á því að fara í Austurberg í gærkvöldi og spila við ÍR. Leikurinn var mjög kaflaskiptur svo ekki sé sterkara að orði kveðið. Fyrrihálfleikur var ÍR-inga þar sem Haukamenn virkuðu þungir og pirraðir ásamt því að gera mörg tæknimistök sem skilaði ÍR ágætu forskoti í hálfleik, 10 – 14. Það var „nýtt“ Haukalið sem mætti til leiks í seinnihálfleik. Meiri áræðni, betri ákvörðunartökur, betri varnarleikur sem leiddi af sér stórgóða markvörslu hjá Giedriusi. Lokaniðurstaðan í seinnihálfleik var 10 – 19 og Haukar náðu því að snúa vondu tafli í flottan leik og sigruðu með 5 mörkum 24 – 29.

Eins og fleiri þá var Sigurbergur ekki líkur sjálfum sér í fyrrihálfleik en átti stórkostlegan seinni hálfleik þar sem hann skoraði 7 mörk en markahæstur í leiknum var Elías Már með 8 mörk en einnig áttu Tjörvi og Jón Þorbjörn flottan leik. Giedrius var frábær í seinnihálfleik en hvorki hann né Einar Ólafur náðu sér á strik í þeim fyrri.

Mörk Hauka: Elías Már Halldórsson 8, Sigurbergur Sveinsson 7/1, Tjörvi Þorgeirsson 5, Jón Þorbjörn Jóhannsson 4, Adam Haukur Baumruk 2, Árni Steinn Steinþórsson 2, Einar Pétur Pétursson 1.
Varin skot: Giedrius Morkunas 13/32 (41%) og Einar Ólafur Vilmundarson 0/5 (0%).

Með þessum sigri styrkti Haukaliðið stöðu sína á toppi deildarinnar og er nú með 19 stig eftir 12 umferðir, 5 fleiri en Fram sem er í öðru sæti.

Næsti leikur Hauka er heimaleikur gegn Akureyri og fer hann fram fimmtudaginn 6. febrúar n.k. í Schenkerhöllinni og hefst hann kl. 18:00.

Áfram Haukar!