Upphitun fyrir bikarúrslitaleikinn á laugardag – Viðtal við Frey Brynjarsson

Það styttist í handboltaleik ársins sem fer fram á laugardaginn þegar Íslandsmeistarar Hauka mæta bikarmeisturum Vals í úrslitaviðureign í Eimskipsbikarkeppni karla. Leikurinn hefst kl. 16:00 í Laugardagshöll.

Haukafólk ætlar að mála Höllina hvíta þar sem Haukarmunu leika í hvítum búningum gegn rauðklæddum Valsmönnum. Forsala miða er hafin á Ásvöllum og á www.midi.is en Haukasíðan mun hita upp fyrir leikinn næstu daga. 

Haukasíðan tók Freyr Brynjarsson, leikmann Hauka og fyrrverandi leikmann Vals, tali.

Stórleikur á laugardaginn, úrslitaleikur í Eimskipsbikarnum og það gegn þínu gamla félagi, hvernig leggst leikurinn í þig? ,,Leikurinn leggst bara vel í mig. Þetta verður hörkuleikur og þarna verða klárlega tvö bestu lið Íslands að berjast um titilinn.“

Nú er þetta fyrsti bikarúrslitaleikurinn hjá Haukum í langan tíma, og hjá mörgum sá fyrsti á ferlinum, finnur þú fyrir mikill tilhlökkun í hópnum fyrir leiknum? ,,Það er mikil tilhlökkun hjá mönnum og ætlum við að selja okkur dýrt í þessum leik. Ég spilaði síðast 2006 þar sem sá leikur tapaðist en þar áður var það með Val 1998 sem vannst. Menn verða að spila eins og þetta verði þeirra síðasti bikarúrslitaleikur. Sumir komast bara einu sinni á svona leik og því er eins gott að nýta tækifærið vel.“

Heldur þú að Spánarferðin sem þú fóruð í um síðustu helgi, muni að einhverju leiti sitja enn í ykkur? ,,Spánarferðin var ágæt en ég held að hún hafi bara þétt hópinn ef eitthvað er. Menn voru þreyttir eftir þessa leiki en ættu að vera búnir að ná sér fyrir laugardaginn.“

Við hvernig leik má búast við á laugardaginn? ,,Það má búast við öllu í svona leik. Það er aldrei hægt að segja fyrirfram með bikarleiki. En ég býst við mjög erfiðum leik þar sem barist verður til síðasta blóðdropa.“

Það er oft talað um að leikir Hauka og FH séu stærstu leikir ársins, en fyrir þig sem gamlan Valsmann, er þá ekki alltaf extra gaman að berjast við þá? ,,Það er alltaf gaman að spila við gamla félagið sem veitti mér fyrst tækifæri í meistaraflokki en núna er ég Haukamaður og geri mitt allra besta til að ná sigri. „

Að lokum, hvernig verður stemmingin á Herrakvöldi Hauka á laugardagskvöldið? ,,Heyrðu stemmningin fyrir Herrakvöldinu er góð held ég bara. Ég er með nokkra miða sem menn geta nálgast hjá mér. Það verður svaka fjör enda ekki annað hægt þegar Júlli Diskó mætir.“

Við þökkum freysa fyrir þetta og óskum honum og liðinu góðs gengis í leiknum á laugardaginn.