Upphitun fyrir bikarúrslitaleikinn á laugardag – Viðtal við Björgvin Hólmgeirsson

HaukarÞað styttist í handboltaleik ársins sem fer fram á laugardaginn þegar Íslandsmeistarar Hauka mæta bikarmeisturum Vals í úrslitaviðureign í Eimskipsbikarkeppni karla. Leikurinn hefst kl. 16:00 í Laugardagshöll.

Haukafólk ætlar að mála Höllina hvíta þar sem Haukarmunu leika í hvítum búningum gegn rauðklæddum Valsmönnum. Forsala miða er hafin á Ásvöllum og á www.midi.is en Haukasíðan mun hita upp fyrir leikinn næstu daga. 

Haukasíðan tók leikstjórnandann Björgvin Hólmgeirsson, leikmann Hauka, tali.Þar sem Freyr Brynjarsson fór svo auðveldlega með spurningarnar sem við spurðum hann, ákváðum við að spyrja Breiðhyltinginn sömu spurninga og athuga hvort hann myndi ekki spjara sig líkt og freysi. Það er svo ykkar að dæma.

Hvernig leggst leikurinn á laugardaginn í þig? ,,Leikurinn leggst bara ákaflega vel í mig. Við ætlum okkur að mæta brjálaðir til leiks og standa uppi sem sigurvegarar.“

Nú er þetta fyrsti bikarúrslitaleikurinn hjá Haukum í langan tíma, og hjá mörgum sá fyrsti á ferlinum, finnur þú fyrir mikill tilhlökkun í hópnum fyrir leiknum? ,,Það er í raun forréttindi að fá að spila þennan stærsta leik tímabilsins og það er mikil tilhlökkun í hópnum enda mikill heiður að spila fyrir framan fulla höll af fólki. „

Heldur þú að Spánarferðin sem þú fóruð í um síðustu helgi, muni að einhverju leiti sitja enn í ykkur? ,,Nei alls ekki, ef eitthvað er þá þjappaði þessi ferð okkur meira saman. Það var fínn hvíldardagur í gær (þriðjudag) og ég þori að fullyrða það að það er engin þreyta í mannskapnum.“

Við hvernig leik má búast? ,,Það má búast við hörkuleik. Þetta eru toppliðin á Íslandi í dag og Valsmenn núverandi bikarmeistarar. En við ætlum okkur sigur í leiknum og ekkert annað.“

Hvernig verður stemmingin á Herrakvöldi Hauka á laugardagskvöldið? ,,Ég hef í raun ekkert hugsað út í það enda mikilvægasti leikur tímabilsins á sama dag… Við skulum bara segja að það verður rífandi stemming á laugardagskvöldið !“

Og við tökum undir með Bjögga og segjum, að sjálfsögðu verður rífandi sigurstemming á Herrakvöldi Hauka sem fram fer á laugardagskvöldið næstkomandi og er miðasala enn í fullum gangi á Ásvöllum.

Fyllum höllina, mætum í hvítu og sýnum hvað í okkur býr, ÁFRAM HAUKAR!