Upphitun fyrir úrslitaeinvígið: Umfjöllun um markverði liðanna

Birkir og Aron Rafn ætla sér að lyfta fleiri bikurum áður en tímabilinu lýkurSpennan magnast fyrir stórleik Hauka og Vals í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í N1 deild karla. Blásið verður til leiks kl. 20:00 á Ásvöllum. Það verður öllu tjaldað til á Ásvöllum til að gera umgjörðina í kringum leikina eins skemmtilega og hægt er. Sögur hafa heyrst af þungaflutningum seint um kvöld þar sem öflugum tækjum er fyrirkomið sem geta lyft þakinu af Ásvöllum. Kynning á leikmönnum verður gerð með stæl og því um að gera að mæta snemma í hús. Lifandi tónlist verður á pöllunum og áhorfendum boðið að taka þátt í leikjum í leikhléum. Leikmenn liðanna eru sömuleiðis klárir í slaginn og lofa hörkuviðureign þar sem sigurvilji, spenna og barátta verða í fyrirrúmi. Stuðningsmenn liðanna eru í startholunum og ætla að taka virkan þátt í leiknum enda er enginn vettvangur betri til að gleyma sér, missa sig og öskra sig hásan en úrslitaeinvígi um stærsta titil tímabilsins. Haukasíðan hefur verið að hita upp fyrir leikina með því að fjalla um leikmenn liðanna. Í dag verður kastljósinu beint að markvörðum liðanna sem er einn sterkasti hlekkur beggja liða. Hlynur Mortens hefur átt frábært tímabil í marki Vals en auk hans stendur Ingvar Kristinn Guðmundsson á milli stanganna í Hlíðarendafélaginu. Hjá Haukum eru það þeir Birkir Ívar Guðmundsson, Aron Rafn Eðvarðsson og Stefán Huldar Stefánsson sem standa fyrir aftan Haukavörnina.

Hlynur Mortens (34 ára) gekk í raðir Valsmanna fyrir þetta tímabil frá Gróttu og var það mikill happafengur fyrir Val því hann hefur átt veigamikinn þátt í velgengni félagsins. Hlynur (Bubbi) hefur alltaf verið markvörður sem hefur átt það til að loka hreinlega markinu í sumum leikjum en hann hefur náð meiri stöðugleika í leik sínum. Markvarslan mun vega þungt í þessari viðureign og því skiptir miklu fyrir Valsmenn að Hlynur finni fjölina sína og að sama skapi er mikilvægt fyrir Haukaliðið að finna leiðir framhjá honum.

Birkir Ívar Guðmundsson hefur að öðrum ólöstuðum verið besti markvörður N1 deildarinnar í vetur og undanfarin tímabil. Birkir er gríðarlega reynslumikill leikmaður sem hefur skipt sköpum fyrir árangur Haukaliðsins undanfarin ár. Aron Rafn Eðvarðsson er efnilegasti markvörður landsins enda var hann valinn á dögunum í A-landsliðið og kom sterkur inn gegn margföldu meistaraliði Frakka. Birkir og Aron eru því gríðarlega sterk markvarðarpar og þeim til aðstoðar er svo annar mjög efnilegur markvörður, Stefán Huldar Stefánsson.

Mætum öll á Ásvelli í kvöld og sjáum markvörslu eins og hún gerist best og úrslitaleik í toppklassa.