Upphitun fyrir úrslitaeinvígið: Umfjöllun um leikstjórnendur liðanna

Tjörvi Þorgeirsson er til í slaginn eins og aðrir miðjumenn HaukaÚrslitaeinvígi Hauka og Vals um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik hefst á föstudagskvöldið á Ásvöllum. Það má segja að þarna mætist stórveldi ólíkra tímabila í íslenskum handknattleik. Haukar geta þannig tryggt sér sjöunda Íslandsmeistaratitilinn í karlaflokki frá árinu 2000 leggi liðið Val að velli í einvíginu. Íslandsmeistarabikarinn hefur því nær sleitulaust haft aðsetur á Ásvöllum á þessari öld. Valur var hins vegar ótvírætt sigursælasta lið 20. aldarinnar í íslenskum handknattleik en liðið varð tuttugu sinnum Íslandsmeistari í karlaflokki á árunum 1940-1999. Haukasíðan hefur verið að hita upp fyrir leikinn með því að fjalla um leikmenn liðanna og að þessu sinni beinist athyglin að leikstjórnendunum. Fannar Þór Friðgeirsson og Sigfús Páll Sigfússon skipta helst með sér leikstjórnendahlutverkinu hjá Val á meðan að Björgvin Hólmgeirsson, Gísli Jón Þórisson og Tjörvi Þorgeirsson gera slíkt hið sama í liði Hauka. Fannar og Sigfús skoruðu 91 mark fyrir Val í vetur en miðjumenn Hauka 95 mörk.

Fannar Þór Friðgeirsson (22 ára) er lykilmaður í liði Vals. Hann skoraði 74 mörk í deildinni í vetur og var því þriðji markahæsti leikmaður liðsins á eftir Arnóri og Elvari Friðrikssyni. Helstu styrkleikar Fannars eru snerpa, styrkur og hversu fylginn sér hann er. Fannar var valinn í úrvalslið þriðju umferðarinnar. Hann getur leikið hvort sem er í stöðu leikstjórnenda, skyttu eða hornamanns og er drjúgur í hraðaupphlaupum. Hann er leikmaður sem tekur af skarið og þurfa Haukar því að hafa góðar gætur á honum. Það mætast stálin stinn þegar Fannar og Freyr standa andspænis hvorir öðrum leiki Haukar framliggjandi 5:1 vörn á köflum í leikjunum.

Sigfús Páll Sigfússon (24 ára) er meiri leikstjórnendatýpa heldur en Fannar og er meira í því að leggja upp fyrir félaga sína og halda uppi hraðanum í sóknarleik Vals. Sigfús gegndi lykilhlutverki í liði Fram þegar það vann titilinn árið 2006. Sigfús er góður gegnumbrotsmaður og nýtur sín best með öflugar skyttur sér til beggja handar.

Breiðhyltingurinn Björgvin Hólmgeirsson gekk til liðs við Hauka úr Stjörnunni fyrir þetta tímabil. Hann er yngri bróðir Einars Hólmgeirssonar og ekki laust við að þeir bræður hafi fengið vænan skammt af skotfestu sem hrellir markmenn hvar sem þeir koma. Undir stjórn Arons Kristjánssonar hefur Björgvin vaxið mikið ásmegin í vetur í stöðu leikstjórnenda en hann hafði oftast verið notaður hjá Stjörnunni og ÍR sem skytta. Björgvin var valinn bestur í annarri umferð N1 deildarinnar en hann skoraði 76 mörk í deildinni í vetur.

Gísli Jón Þórisson glímdi við erfið meiðsli mestan part vetrar en hefur verið að koma inn til að stjórna sóknarleik Hauka á köflum eftir áramót. Gísli Jón er uppalinn Haukamaður og gefur hvergi eftir, hvorki í vörn sé sókn.

Tjörvi Þorgeirsson er einn af efnilegustu leikmönnum liðsins. Tjörvi er teknískur leikmaður sem er góður í gegnumbrotum, undirskotum og línuspili. Hann tryggði Haukum eftirminnilegan sigur í deildarbikarkeppninni á milli jóla og nýárs með ævintýralegu marki á lokasekúndunni gegn Akureyri. Hann átti sömuleiðis í tvígang mjög góða innkomu í Evrópukeppninni í febrúar þegar liðið mætti spænska liðinu Naturhouse La Rioja á Norður-Spáni.