Upphitun fyrir úrslitaeinvígið: Umfjöllun um hornamenn liðanna

Freyr Brynjarsson gegnir mikilvægu hlutverki í liði Hauka eins og hornamennirnir almennt í báðum liðumÁ föstudaginn hefst úrslitaeinvígi Hauka og Vals um Íslandsmeistaratitilinn. Haukasíðan mun fjalla um leikmenn liðanna næstu daga og í dag er kastljósinu beint að hornamönnunum. Bæði lið hafa á að skipa sterkum hornamönnum sem gegna lykilhlutverki í leik liðanna. í Val er Arnór Þór Gunnarsson í hægra horninu og Baldvin Þorsteinsson og Gunnar Ingi Jóhannsson í því vinstra þótt fleiri leikmenn eigi það til að detta niður í horn. Hjá Haukum eru það svo þeir Freyr Brynjarsson og Stefán Rafn Sigurmannsson sem skipta með sér vinstra horninu og Einar Örn Jónsson og Guðmundur Árni Ólafsson sem deila því hægra auk þess sem Elías Már Halldórsson getur að sjálfsögðu skellt sér í þá stöðu. Hornamenn Vals skoruðu um 170 mörk í vetur en hornamenn Hauka rúmlega 160.

Arnór Þór Gunnarsson (22 ára) skoraði 123 mörk fyrir Valsmenn í vetur og var þeirra markahæstur. Arnór er gríðarlega öruggur skotmaður sem getur auðveldlega brugðið sér í stöðu hægri skyttu í deildinni hér heima. Valsliðið leitar mikið til hans þegar erfiðlega gengur að koma boltanum í netið og skiptir því miklu máli fyrir Haukana að loka vel á Arnór. Hann skorar auk þess grimmt úr hraðaupphlaupum en þeir Baldvin eru duglegir að finna hvor annan í fyrstu bylgju. Norðanmaðurinn Baldvin Þorsteinsson og Gunnar Ingi, sonur Jóhanns Inga fyrrverandi þjálfara Kiel, landsliðsins og Hauka, eru báðir 26 ára. Þeir skoruðu samtals 47 mörk í N1 deildinni í vetur. Þeir eru báðir öflugir leikmenn og miklir keppnismenn. Það er samt alveg ljóst að liðið hefur mun meiri tilhneigingu til að opna fyrir hægra hornið en það vinstra.

Einar Örn Jónsson og Guðmundur Árni Ólafsson skoruðu samtals 81 mark í vetur. Hér fara saman gríðarleg reynsla og efni þar sem Einar Örn er með reynslumestu leikmönnum deildarinnar sem hefur ítrekað reynst dýrmætur á lokasekúndum spennandi leikja auk þess sem karlinn er sífellt að verða fastari fyrir í vörninni. Guðmundur Árni kom frá Selfossi fyrir þetta tímabil og það er engum blöðum um það að flétta að þarna er um gríðarlegur efnisviður á ferð. Guðmundur býr yfir mikill skottækni sem gerir hann erfiðan viðureignar fyrir hvaða markmenn sem er. Hann fór á kostum í bikarúrslitaleiknum gegn Val og var markahæstur í liði Hauka.

Freyr Brynjarsson lék um árabil með Val og er því enn eina ferðina að mæta sínu gamla liði í úrslitum. Freyr hefur aldrei leikið betur en undanfarin ár þar sem hann hefur blómastað enda ótrúlegur keppnismaður á ferð sem er ætíð reiðubúinn að fórna sér í verkefnið. Freyr gegnir ennfremur lykilhlutverki í framliggjandi vörn Hauka. Hann deilir vinstra horninu með Stefáni Rafni sem er verulega efnilegur hornamaður en í honum fer saman skottækni, áræðni og hæð sem er óvenjuleg hjá hornamanni hér á landi. Freyr og Stefán Rafn skoruðu 80 mörk í vetur.