Undanúrslitin fara af stað

Meistaraflokkur karla í handbolta hefur leik í undanúrslitum úrslitakeppni Olísdeildar karla á morgun, þriðjudag, kl. 18:00 þegar að ÍBV kemur í heimsókn í Schenkerhöllina. ÍBV vann FH í 8-liða úrslitum nokkuð sannfærandi 2-0 í leikjum á meðan Haukastrákarnir unnu Stjörnuna 2-1 í leikjum.

Liðin hafa leikið tvisvar sinnum gegn hvoru öðru í vetur en fyrir áramót mættust þau í Schenkerhöllinni en þá höfðu Haukastrákarnir betur 32 – 26 og svo aftur nú fyrir skömmu í næst síðustu umferð deildarkeppninnar en þá gerðu liðin jafntefli 27 – 27, það stig tryggi Haukum endanlega deildarmeistaratitilinn. ÍBV lenti í 5. sæti deildarinnar þrátt fyrir að hafa verið í smá erfiðleikum framan af en Eyjamenn stigu upp seinni hluta mótsins þegar þeir virtust vera búnir að finna taktinn frá því í fyrra þegar að þeir unnu þrefalt.

Þetta verður í 4 skiptið á síðustu 6 árum sem að liðin mætast í úrslitakeppni en ÍBV vann eftirminnilegan oddaleik um Íslandsmeistaratitilinn árið 2014. Haukar slógu svo ÍBV úr keppni í undanúrslitum 2016 3-1 í leikjum og enduðu svo á því að verða Íslandsmeistarar. Í fyrra mættust liðin einnig í undaúrslitum en þá sigruðu Eyjamenn nokkur örugglega 3-0 í leikjum og tryggðu sér svo Íslandsmeistaratitilinn í kjölfarið.

Það má búst við sannkallaðri handboltaveislu sem enginn má láta fram hjá sér fara og því algjör skyldumæting fyrir allt Haukafólk í Schenkerhöllina. Haukafólk er hvatt til að mæta snemma í rauðu en borgarar verða á grillinu og mikil stemmning. Áfram Haukar!