Þórir Jóhann kom að báðum mörkum Íslands

Haukamaðurinn Þórir Jóhann Helgason átti gríðarlega góðan landsleikjaglugga með A-landsliðinu í þessum mánuði. Hann kom að báðum mörkunum sem Ísland skoraði í verkefninu.

Þórir, sem ólst upp á Ásvöllum og steig sín fyrstu skref í meistaraflokki með Haukum, kom inn á sem varamaður í vináttulandsleik gegn Venesúela í síðustu viku. Hann átti flotta innkomu og nældi í vítaspyrnu seint í leiknum. Úr þeirri vítaspyrnu kom eina mark Íslands í góðum 1-0 sigri.

Miðjumaðurinn öflugi var svo í byrjunarliðinu er landsliðið lék sinn síðasta leik í Þjóðadeildinni þetta árið í gærkvöldi. Strákarnir í A-landsliðinu mættu Albaníu í Tirana og sýndu góða frammistöðu. Þeir voru einum færri frá tíundu mínútu en tókst samt að ná jafntefli á erfiðum útivelli. Þórir lék allan tímann og var frábær í leiknum. Hann lagði upp jöfnunarmarkið í uppbótartímanum með gullfallegri sendingu.

Hægt er að sjá frábæra stoðsendingu Þóris úr leiknum í gær með því að smella hérna.

Þórir, sem leikur núna með Lecce í ítölsku úrvalsdeildinni, er búinn að festa sig í sessi með A-landsliðinu og er það virkilega gaman að sjá. Hann er búinn að leika 14 leiki með liðinu og skora í þeim tvö mörk.

Þórir á afmæli í dag – er 22 ára gamall – og óskum við honum til hamingju með daginn og með góðan landsleikjaglugga. Hann er frábær fyrirmynd fyrir unga leikmenn Hauka og hefur hann sýnt það og sannað hvað hægt er að ná langt með dugnaði og elju.

Mynd: Hulda Margrét

Þórir Jóhann Helgason í landsleik