Telma og Valdís semja við knattspyrnudeild Hauka

Markvörðurinn Telma Ívarsdóttir og varnarmaðurinn Valdís Björg Sigurbjörnsdóttir hafa undirritað lánssamning við Hauka og munu spila með meistaraflokki kvenna í 1. deildinni í sumar. Báðar koma frá Breiðablik.

Telma sem er á 19. aldursári á að baki 25 leiki með meistaraflokkum Fjarðabyggðar og Grindavíkur, auk 22 leikja með U17 og U19 landsliðum Íslands.  Telma er í U19 hópnum sem spilar æfingaleiki á La Manga Spáni 28. febrúar til 7. mars nk.

Valdís Björg sem er á 18. aldursári á að baki 38 leiki með Augnabliki og 10 leiki með U17 landsliði Íslands.

,,Það ríkir mikil ánægja á Ásvöllum með komu þeirra Telmu og Valdísar en þær munu koma til með að styrkja okkar varnarleik og auka samkeppni í liðinu. Þar fyrir utan eru þær flottir karakterar og munu koma sterkar inn í klefann.

Telma hefur verið aðalmarkvörður U19 og U17 undanfarin ár og er einn efnilegasti markvörður landsins. Við ætlum að hjálpa henni að taka næstu skref svo hún geti haldið áfram að þróast sem leikmaður.

Valdís Björg býr að góðri leikreynslu þrátt fyrir ungan aldur en hún hefur leikið fjöldann allan af leikjum fyrir Augnablik. Eins hefur hún verið að leika með aðalliði Breiðabliks í vetur og staðið sig vel. Við ætlum að sama skapi að hjálpa henni að taka næstu skref á sínum ferli.

Við hjá Haukum erum stolt að veðja á íslenska unga leikmenn því það er rétt þróun á íslenskri kvennaknattspyrnu,“ segir Jakob Leó Bjarnason þjálfari meistaraflokks kvenna.

Knattspyrnufélagið Haukar býður þær Telmu og Valdísi innilega velkomnar í Hauka fjölskylduna.

Knattspyrnudeild Hauka þakkar Blikum sérstaklega fyrir samvinnuna varðandi tímabundin vistaskipti þeirra Telmu og Valdísar yfir í Hauka.

Telma og Valdís við undirskriftina.