Tap gegn Fram

HaukarLélegt gengi meistaraflokks karla í N1-deild karla heldur áfram og nú eftir tap gegn Fram á Ásvöllum, 20-27 er þriðja tapið í röð í deildinni staðreynd, en áður hafði liðið tapað gegn Val og HK.

Haukaliðið er því sem stendur í 6.sæti deildarinnar með 4 stig. En Framarar eru komnir í 3.sætið með 7 stig.

Þrátt fyrir þetta tap er engin ástæða til að leggja árar í bát enda nóg eftir og vitum við það best sjálf að Haukaliðið á að geta gert miklu betur en þeir hafa verið að gera í síðustu leikjum, það er bara tímaspursmál hvenær þetta smellur á ný hjá þeim í deildinni.

 

Framarar skoruðu fyrst mark leiksins en Haukar jöfnuðu strax í kjölfarið, svona gekk þetta þangað til Haukar komust fyrst yfir í leiknum í stöðunni 4-3 og héldu þeir því forskoti út hálfleikinn og staðan í hálfleik 12-11, Haukum í vil.

Seinni hálfleikurinn byrjaði eins og sá fyrri, jafnt var á flestum tölum en Framarar náðu þó ágætis forskoti þegar leið á seinni hálfleikinn og um miðjan hálfleikin var staðan orðin 16-19 Fram í vil, en Haukar voru ekki lengi að minnka það niður í eitt mark, 18-19. En þá sögðu Framarar hingað og ekki lengra og skoruðu þrjú mörk í röð og gerðu endanlega útum leikinn, komust í 24-19 þegar rétt rúmlega fimm mínútur voru eftir af leiknum. Þeir skoruðu svo nokkur mörk á síðustu mínútum leiksins og lokastaðan 20-27 Frömurum í vil.

 

Markahæstur í liði Hauka var Andri Stefan með 7 mörk en næstur honum var Gísli Jón Þórisson með 5 mörk. Birki Ívar stóð vaktina í markinu í fyrri hálfleik vel og varði í heildina 18 bolta, Gísli Guðmundsson kom inn á í seinni hálfleik og varði 5 bolta.

Hjá Fram var Andri Berg Haraldsson markahæstur með 7 mörk og Rúnar Kárason kom næstur honum með 6 mörk. Magnús Erlendsson markvörður Framara varði 20 bolta og Davíð Svansson 5.

Næsti leikur Hauka í N1-deild karla er gegn Víkingi á sunnudaginn á Ásvöllum.