Tap í fyrri viðureigninni við FH

images/stories/Fotbolti/2011/Mfl._kvenna_2011/fh - mynd to.jpgFyrri úrslitaleikur Hauka og FH um sæti í Pepsí-deild kvenna á næsta ári fór fram á Ásvöllum í dag. Það er skemmst frá því að segja að sjö leikja sigurgöngu Haukastúlkna í Íslandsmótinu lauk í dag þegar þær biðu lægri hlut fyrir FH, 1-8, sem var óþarflega stór munur miðað við gang leiksins.

FH stúlkur gerðu út um leikinn í byrjun hans og höfðu skorað fimm mörk á fyrstu tuttugu mínútunum og úrslitin því í reynd ráðin og erfitt fyrir Haukastúlkur að ná sér almennilega á strik eftir það.

Brooke Barbuto náði þó að minnka muninn

fyrir Hauka áður en sjötta mark FH leit dagsins ljós og staðan í hálfleik því 1-6.

Í síðari hálfleik var jafnræði með liðunum og Haukastúlkur áttu nokkur ágæt marktækifæri án þess að ná að skora og minnka muninn. Það voru síðan FH stúlkur sem bættu við tveimur mörkum á síðustu 10 mínútunum, það síðara úr vítaspyrnu. Úrslit leiksins því 1-8 fyrir FH.

Seinni úrslitaleikur félaganna á Kaplakrikavelli á þriðjudag verður ef af líkum lætur formsatriði varðandi úrslit þessa einvígis Hafnarfjarðaliðanna um sæti í Pepsí-deild kvenna á næsta ári. Haukastúlkur munu vafalítið vilja enda keppnistímabilið á öðrum nótum en þær gerðu í dag. Þó þær átti sig á að ekki muni nást að vinna upp sjö marka sigur FH í dag munu Haukastúlkur mæta í seinni leikinn á Kaplakrikavelli ákveðnar í að gera mikið betur en í dag. 

Í spjalli við haukar.is skömmu eftir leik sagði Heimir Porca þjálfari Hauka þennan leik vera leik sem maður vill gleyma sem fyrst og sem betur fer væri stutt í næsta leik við FH. Fyrsta korterið hefði verið martröð fyrir sínar stelpur og FH hafði þá skorað fjögur mörk. Þær hefðu því miður gert allt annað en lagt hefði verið upp fyrir leik og of mörg mistök verið gerð. Mörkin hefðu í byrjun flest verið af ódýrari gerðinni auk þess sem eitt markanna virtist vera klár rangstæða þó það hefði ekki skipt sköpum. 

Heimir sagði að því miður hefðu hans leikmenn ekki verið einbeittir í leik sínum. Við gerum okkur grein fyrir að þetta einvígi er búið og í næsta leik verður spilað upp á heiðurinn, að bjarga andlitinu fyrir hönd félagsins. Heimir sagði í lokin vilja hvetja allt stuðningsfólk Hauka til að mæta á seinni leikinn á Kaplakrikavöll og styðja Haukastúlkurnar til sigurs. Þær ættu það svo sannarlega skilið eftir frábæra frammistöðu í sumar.

Í hinu úrslitaeinvíginu um sæti í Pepsí-deild kvenna vann Keflavík 3-2 sigur á Selfossi þar sem seinni leikurinn fer fram á Selfossi á þriðjudag eins og leikur Hauka og FH.