Tap á Skaganum

Haukar

Haukar léku gegn 1.deildarliði ÍA í annarri umferð í Lengjubikar karla á Akranesi í morgun. Skagamenn fóru með sigur úr leiknum með 4 gegn 3.

Mörk Hauka skoruðu Hilmar Trausti Arnarsson, Guðjón Pétur Lýðsson og Ásgeir Þór Ingólfsson. Hægt er að lesa umfjöllun um leikinn frá Fótbolti.net með því að ýta á „lesa meira“.

Næsti leikur Hauka er gegn Stjörnunni á sunnudaginn 7.mars í Reykjaneshöllinni og hvetjum við Haukafólk til að fjölmenna á leikinn.

 ÍA sigraði Hauka 4-3 í fyrsta leik dagsins í Lengjubikar karla en leikið var í Akraneshöllinni. 

Ragnar Leósson fór á kostum í leiknum og skoraði tvö mörk. Ragnar kom Skagamönnum yfir strax á sjöttu mínútu þegar að hann vippaði yfir Amir Mehica sem stóð í marki Hauka í dag. 

Haukar jöfnuðu á 22.mínútu en Hilmar Trausti Arnarsson skoraði þá stórglæsilegt mark. Hilmar Trausti tók þríhyrningsspil við Garðar Ingvar Geirsson og skoraði síðan með fallegu skoti upp í bláhornið. 

Ívar Haukur Sævarsson kom Skagamönnum aftur yfir þegar að hann fylgdi á eftir skoti en Guðjón Pétur Lýðsson jafnaði fyrir Hauka fyrir hálfleik þegar að hann skoraði eftir vel útfærða aukaspyrnu. 

Eftir rúman klukkutíma náði Ragnar Leósson að koma Skagamönnum í 3-2 þegar að hann slapp í gegn og hann lagði svo upp fjórða markið fyrir Arnar Má Guðjónsson með frábæru einstaklingsframtaki á 72.mínútu. 

 

Ásgeir Þór Ingólfsson minnkaði muninn með glæsilegu skoti fyrir utan teig undir lokin en lengra komust Haukar ekki og Skagamenn unnu 4-3 og annar sigur liðsins í Lengjubikarnum staðreynd.

 

Frétt frá Fótbolta.net. Sjá alla fréttina: http://fotbolti.net/fullStory.php?action=viewStory&id=87899#ixzz0glCTNunH