Tap á Ísafirði

Haukar töpuðu leiknum um toppsætið í 1. deildinni í gær þegar þeir brunuðu til Ísafjarðar og spiluðu við heimamenn í KFÍ. KFÍ voru betri aðilinn í leiknum og unnu á endanum 82-69.

Haukaliðið náði ekki að fylgja eftir góðum sigrum undanfarnar vikur og voru Ísfirðingar betri aðilinn í lengri tíma í leiknum. KFÍ leiddi eftir fyrsta leikhluta með 11 stigum 21-10 og með sama mun í hálfleik, 40-29.

Haukar komu sterkir til leiks í upphafi seinni hálfleiks. Minnkuðu þeir muninn jafnt og þétt og var útlit fyrir að þeir myndu sigla framúr. Emil Barja skoraði síðustu körfu leikhlutans rétt fyrir lok hans og minnkaði muninn í tvö stig 55-53.

Sterkur leikur Hauka í þriðja leikhluta skilaði sér ekki inn í lokaleikhlutann og vann KFÍ hann örugglega 27-16 og leikinn 82-69.

Helgi Einarsson var stigahæstur Hauka með 23 stig og hefur hann látið fara mikið fyrir sér í fyrstu leikjum Hauka í vetur. Sævar Ingi Haraldsson var næstu Helga í stigaskori með 13 stig en að auki tók hann 7 fráköst og var frákastahæstur Hauka.

Sveinn Ómar Sveinsson reimaði á sig skóna og var með í sínum fyrsta leik í vetur  en hann hefur verið að jafna sig á meiðslum síðan síðasta leiktíð lauk.