Tækifæri til að komast á toppinn

Freyr Brynjarsson fer á fornar heimaslóðir þegar Haukar sækja Valsmenn heimFyrsta sæti N1 deildar karla er í húfi þegar Haukar halda að Hlíðarenda og mæta Valsmönnum. Leikurinn hefst kl. 16:00 í dag (sunnudag). Fyrir leikinn eru Valsmenn í efsta sæti með 10 stig eftir sex leiki en Haukar í öðru sæti með 9 stig eftir fimm leiki.  Með sigri geta Haukar komist í vænlega stöðu og tyllt sér á topp deildarinnar og samt átt leik til góða. Stigin tvö eru þó fjarri því að vera auðsótt í greipar Hlíðarendaliðsins sem hefur leikið vel í haust. Valsliðið er þekkt fyrir hraðan og skemmtilegan leik og því má búast við hörku rimmu þegar þessi tvö bestu lið landsins um þessar mundir mætast að Hlíðarenda. Haukafólk er hvatt til að fjölmenna og styðja við bakið á strákunum. Hér er smá tölfræði fyrir leikinn.

  • Hornamaðurinn knái Arnór Þór Gunnarsson og hinn snöggi Fannar Þór Friðgeirsson, sem getur leikið nær allar stöður á vellinum, hafa verið fyrirferðarmestir í markaskorun Vals. Arnór hefur gert 32 mörk og Fannar 26 sem þýðir að þeir félagar skora u.þ.b. þriðja hvert mark liðsins. Skytturnar Elvar Friðriksson og Ernir Hrafn Arnarson hafa sömuleiðis verið nokkuð iðnir við kolann og skorað samtals um 40 mörk.  
  • Sigurbergur Sveinsson, Björgvin Þór Hólmgeirsson og Freyr Brynjarsson hafa verið langatkvæðamestir í markaskorun Haukaliðins í leikjunum fimm í deildinni í haust og skorað 57% marka liðsins.
  • Valsliðið hefur skorað að meðaltali 26,3 mörk í leik það sem af er deildinni og fengið á sig 23 mörk. Haukaliðið skorar hins vegar að meðaltali 27 mörk og fær á sig 24,4. Út frá þessari einföldu tölfræði hafa Haukarnir því sigur sóknarlega en Valsmenn varnarlega og er mjótt á munum beggja enda vallarins. 
  • FH hefur skorað flest mörk að meðaltali í leik það sem af er keppninni eða 29 mörk en fengið á sig að meðaltali 27 mörk. Valsmenn hafa fengið á sig fæst mörk að meðaltali eða 23 eins og áður segir.