Tækifæri fyrir konurnar að láta til sín taka

Nú gefst konum sérstakt tækifæri til þess að láta frekar til sín taka innan knattspyrnuhreyfingarinnar því KSÍ hefur ákveðið að halda sérstakt dómararnámskeið fyrir konur.

Konur! Nú er tækifæri til að láta ekki standa við orðin tóm og nýta þetta tækifæri til þess að komast til áhrifa innan knattspyrnuhreyfingarinnar, með því að komast í mikilvægustu stöðuna á vellinum: dómarastöðuna.

Öllum konum eldri en 16 ára er frjálst að sækja námskeiðið. Engar kröfur um knattspyrnuhæfileika eru gerðar, viðkomandi þarf einungis að hafa brennandi áhuga á íþróttinni. Áhugasamir geta sent póst á fotbolti@haukar.is eða á netfangið í frétt KSÍ, sem birt er í heilu lagi hér fyrir neðan.

Frétt af www.ksi.is

…………….

Dómaranámskeið eingöngu fyrir konur.

Námskeiðið haldið sunnudaginn 24. febrúar

Mikil áhugi er innan vébanda KSÍ að fá fleiri konur í dómgæslu. Hugmyndin er að halda dómaranámskeið eingöngu fyrir konur. Farið verður yfir knattspyrnulögin og síðan mun Gylfi Orrason fara í praktísku hliðina á dómgæslunni. Í framhaldi munum við síðan finna verkefni við hæfi þar sem dómaratríóið yrði eingöngu skipað konum.

Í fyrrasumar var haldin úrslitakeppni EM U-19 kvenna hér á Íslandi. Dómararnir voru eingöngu konur enda er það stefna hjá FIFA að konur dæmi alla kvennaleiki á vegum þess.

Ef vel tækist til í þessu átaki er ekkert því til fyrirstöðu að tilnefna konur á FIFA listann í framtíðinni.

Námskeiðið verður sunnudaginn 24. febrúar.

Allar konur sem hafa áhuga á þessum málaflokki eru hvattar til að mæta og gildir þá einu hvort einhver dómarareynsla er til staðar eða ekki.

Ef þú hefur áhuga á að taka þátt í námskeiðinu sendu þá póst á magnus@ksi.is