Svekkjandi tap gegn Tindastóli

Jovanni Shuler var öflugur í liði Hauka í gær - tomasz@karfan.isTindastóll hafði betur í slagnum um 10. sætið í IE-deildinni í gær þegar liðin mættust í Schenkerhöllinni. Um baráttu leik var að ræða þar sem að varnir beggja liða voru þéttar á löngum köflum og oftar en ekki þurftu liðin að sætta sig við ekkert merkileg skot á loka sekúndum skotklukkunnar.

Liðin skiptust á að hafa forystu í fyrsta leikhuta en Tindastóll hafði þó betur að lokum hans og leiddi með fjórum stigum. Snemma í öðrum leikhluta lentu Haukar 10 stigum undir en með baráttu náðu þeir að jafna leikinn. Það vantaði herslumuninn til þess að ná að komast yfir en þess í stað voru þeir fimm stigum undir í hálfleik.

Allur seinni hálfleikur var jafn og spennandi og skarst ekki úr um úrslit fyrr en að 18 sekúndur lifðu leiks en þá voru Haukar tveimur stigum undir og í sókn. Jovanni Shuler fékk dæmdan á sig ruðning og í kjölfarið skoruðu gestirnir úr tveimur vítum. Haukar náðu ekki að nýta sóknina þar á eftir og aftur fóru Stólarnir á línuna og nýttu vítaskotin sín. Leiknum lauk með sex stiga sigri Tindastóls 74-80.

Jovanni Shuler var stigahæstur Hauka með 28 stig og 7 fráköst og Emil Barja og Haukur Óskarsson voru með 11 stig hvor.

Chris Smith var langt frá sínu besta þrátt fyrir magnaða varnartilburði í seinni hálfleik en hann varði ein 6 skot og flest þeirra í fjórða leikhluta þegar mikið lá undir. Það sama mætti segja um Helga Björn Einarsson og Örn Sigurðarson en lítið fór fyrir þeim. 

Næsti leikur liðsins er gegn Grindavík í Lengjubikarnum á mánudaginn en það er loka leikur liðsins í þeirri keppni en Grindavík er þegar komið áfram í „Hin fjögur fræknu“.