Sunnudagurinn 1. apríl

Á sunnudaginn, 1. apríl, spila strákarnir í meistaraflokki afar mikilvægan leik gegn Fylki í Árbænum klukkan 18:00. Við Haukamenn ætlum að búa til stemningu á vellinum og styðja okkar stráka til sigurs því eins og við öll vitum skiptir þessi leikur afar miklu máli fyrir okkur.

Við hittumst á Ásvöllum klukkan 16:00. Þar verður boðið uppá andlitsmálningu auk þess sem boðið verður upp á pylsur og djús, þannig allir verði vel pulsaðir upp fyrir leikinn (að hætti Ólsengengisins). Klukkan 16:45 verða svo ókeypis sætaferðir inn í Árbæ og ókeypis sætaferðir verða í boði á Ásvelli eftir leik. Við Haukamenn mætum að sjálfsögðu í rauðu á leikinn og málum Árbæinn rauðan.

Það hefur verið samþykkt í stjórn Hauka í horni að skorað er á alla félagsmenn að taka með sér tvo eða fleiri á leikinn.

Haukamenn, fjölmennum á leikinn, hvetjum okkar stráka, mætum á Ásvelli og hitum upp fyrir leik og tökum vini og vandamenn með okkur. Hjálpum nú strákunum í baráttunni í deildinni og hvetjum þá til sigurs í þeim leikjum sem eftir eru.

Frítt verður á leikinn þannig það er mikilvægt að mæta tímanlega til að komast inn!!

Við minnum einnig á að á laugardaginn, 31. mars, leika stelpurnar gegn HK í Digranesi klukkan 14:15.

ÁFRAM HAUKAR!!