Strákar í 5. flokki Hauka á N1 mótinu

5. fl. Hauka D lið vann bikar á mótinuÞað voru 42 strákar úr 5. flokki Hauka sem tóku þátt í N1 mótinu sem fram fór á Akureyri dagana 2. – 5. júlí sl. Haukar voru þar með 5 lið A, C, D, E og F.

Gist var í Lundaskóla sem er við hliðina á völlunum og kom það sér vel þar sem rigning setti svip sinn á mótið og þá sérstaklega síðasta daginn þar sem allt fór á flot á svæðinu.
Það var því úr vöndu að ráða fyrir forráðamenn N1 mótsins því vellirnir voru margir óleikfærir síðasta daginn. Niðurstaðan var að leika aðeins um 10 fyrstu sætin og færa alla leikina á gervigrasið. Mótið fékk því heldur snöggann endi hjá nokkrum strákum.

Hins vegar voru 2 lið að spila til úrslita og fór það svo á endanum að Haukar stóðu uppi sem sigurvegarar í 2 liðum því D og E liðin unnu sínar deildir.

Að auki var Ísak Helgi valinn besti markmaður í F liðum og Hallur Húni besti sóknarmaður í D liðum.

Það má því með sanni segja að Haukar hafi staðið sig með miklum sóma á mótinu í ár og óhætt að segja að framtíðin sé björt hjá Haukum.
Strákarnir voru einnig sjálfum sér og Haukum til mikils sóma innan vallar sem utan.