Stelpurnar unnu Hött

Kristín Ösp SigurðardóttirHaukastelpur unnu í dag góðan 2-1 sigur á Hetti á Ásvöllum. Leikið var í sannkallaðari rjóma blíðu og sáust oft ágætis tilþrif á vellinum.

Ekki var mikið liðið að af leiknum þegar Kristín Ösp Sigurðardóttir, sem hefður verið iðin við að skora á undirbúningstímabilinu, kom Haukum í 1-0. Kristín fékk þá stungusendingu innfyrir vörn Hattar hægra megin og komst ein gegn markverði og gerði frábærlega í að smyrja boltann upp í nærhornið úr nokkuð þröngri stöðu.

 Eftir þessa góðu byrjun virtist sem stelpurnar ætluðu að halda uppteknum hætti og láta kné fylgja kviði, það var því eins og köld vatnsgusa í andlit þeirra þegar Hattar stelpur jöfnuðu eftir nokkuð klaufalegan varnarleik sem endaði á að leikmaður Hattar skaut boltanum óverjandi upp í markhornið utarlega úr tegnum. 

Þetta mark frá Hetti setti heimastúlkur nokkuð út af laginu en jafnræði var með liðunum megnið af fyrri hálfleiknum, Haukastelpur áttu tvö ágætis færi sem þeim Sonju BjörkGuðmundsdóttur og Stefaníu Þórisdóttur ekki tókst að skora úr en hinu megin vallarins bjargaði Dúfa Dröfn Ásbjörnsdóttir tvisvar sinnum glæsilega úr dauðfærum gestana. 

Áfram var nokkuð jafnræði með liðunum í síðari hálfleiknum en það voru Haukastúlkur sem voru duglegri að skapa sér hættuleg færi, markvörður Hattar bjargaði í það minnsta fjóru sinnum úr dauðafærum heimaliðsins, þar af tvisvar sinnum á hreint stórkostlegan hátt frá Sonju Björk sem átti fínan leik á vinstri kantinum fyrir Hauka í dag. Gestirnir áttu nokkrar hættulegar skyndisóknir sem þeim gekk hins vegar illa að klára almennilega en fengu þó eitt mjög gott færi sem Dúfa tók að sjálfsögðu í markinu.

Það var svo tíu mínútum fyrir leikslok að Haukar skoruðu sigurmarkið og var þar að verki markamaskínan Kristín Ösp Sigurðardóttir er hún komst ein í gegn og kláraði færi sitt glæsilega með því að lyfta boltanum yfir markvörð Hattar og í netið. Sannarlega vel að verki staðið hjá Kristínu og gríðarlega mikilvægt fyrir Haukaliðið sem ætlaði sér stigin þrjú í dag eftir svekkjandi jafntefli við ÍR í síðustu umferð.

Síðustu mínúturnar sóttu gestirnir í sig veðrið og bjargaði Dúfa m.a. einu sinni enn vel í markinu en leiknum lauk með 2-1 sigri Haukastúlkna og verður að segja að þær tölur eru sanngjarnar.