Stelpurnar halda upp á Skaga í kvöld

Haukastelpur fagna marki Haukastelpur mæta ÍA í kvöld kl.20:00 á Akranesvelli í 1. deild kvenna í knattspyrnu. Óhætt er að segja að andstæðingur okkar stúlkna sé af erfiðari gerðinni í kvöld. Skagastúlkur fóru taplausar í gegnum mótsleiki undirbúningstímabilsins og unnu Faxaflóamótið og Lengjubikarinn með töluverðum yfirburðum. Í sumar hafa þær aðeins hikstað í byrjun og tapa stigum nokkuð óvænt gegn lægra skrifuðum liðum. En þess ber að geta að af þeim fimm leikjum sem þær hafa spilað hafa fjórir þeirra verið á útivelli.

Af Haukaliðinu er það hins vegar að frétta að liðið verður án þriggja sterkra leikmanna í kvöld, þær Hildur Kristín Kristjánsdóttir og Sara Rakel Hinriksdóttir eru fjarverandi ásamt því að Kristín Ösp Sigurðardóttir er í leikbanni.

Haukastelpur hafa farið ágætlega af stað í deildinn og eru með 5 stig eftir þrjá leiki líkt og ÍA en ÍA hefur leikið tveimur leikjum meir. Okkar stúlkur mæta því svo sannarlega óhræddar til leiks kvöld og ætla sér ekkert annað en að sækja stigin þrjú upp á Skaga.

Áfram Haukar!