Stefán Gíslason tekur við meistaraflokki karla hjá Haukum í knattspyrnu

• Kjartan stýrir Haukum í Pepsí deild kvenna
• Áframhaldandi samstarf við Luka Kostic
• Nýir búningar frá Errea
• Haukar eru Samhentir

 

Knattspyrnufélagið Haukar kynnir með stolti nýjan þjálfara meistaraflokks karla í knattspyrnu þar sem Stefán Gíslason, fyrrum landsliðsmaður, mun taka við keflinu af Luka Kostic og Þórhalli Dan Jóhannssyni sem hafa unnið ómetanlegt starf fyrir deildina síðustu ár. Kjartan Stefánsson verður áfram þjálfari Pepsí deildar liðs meistaraflokks kvenna. Þá hefur verið gerður samningur við íþróttavöruframleiðandann Errea fyrir keppnis- og æfingabúninga deildarinnar sem og samningur við Samhenta hf. um að vera einn af aðal styrktaraðilum deildarinnar.

Stefán Gíslason hefur verið atvinnumaður í knattspyrnu erlendis í meira og minna í 17 ár með tveimur stoppum hér heima á þeim tíma. Stefán hóf atvinnumennskuferilinn í Englandi 16 ára gamall og þá hefur hann spilað í Noregi, Danmörku, Austurríki og Belgíu. Stefán hefur spilað með öllum yngri landsliðum Íslands og á rétt rúma 30 A-landsleiki fyrir Ísland. Hann lauk UEFA A þjálfaragráðunni hjá KSÍ í vor. Við bjóðum Stefán innilega velkominn í Hauka fjölskylduna.

Þjálfarar meistaraflokka karla og kvenna hjá Haukum.

Við byggjum á uppöldum leikmönnum
Fyrir tveimur árum var tekin sú stefnumótandi ákvörðun hjá Knattspyrnudeild Hauka að byggja fyrst og fremst á uppöldum leikmönnum undir handleiðslu Luka og Þórhalls og það er óhætt að segja að þeir hafi unnið magnað starf fyrir félagið. Stjórn knattspyrnudeildar Hauka þakkar þeim Luka og Þórhalli innilega fyrir frábært samstarf og þá er það okkur mikil ánægja að kynna að deildin hefur gert samning við þjálfunarfélag Luka Kostic, Ask Luka ehf., varðandi einstaklingsmiðaða afreksþjálfum fyrir framtíðar leikmenn Hauka í karla- og kvennaflokkum félagsins.

Knattspyrnudeild Hauka bindur miklar vonir við ráðningu Stefáns þar sem markmiðið er að þróa enn frekar okkar leikmenn en þess má geta að um 80-90% af byrjunarliðsleikmönnum þessa tímabils eru uppaldir Hauka strákar.

Spennandi tímar í Pepsí
Meistaraflokkur kvenna sem mun spila í Pepsí deildinni á næsta tímabili verður áfram undir stjórn Kjartans Stefánssonar. Við í Haukum erum afar lánsöm að eiga afar efnilega leikmenn sem hafa verið í lykil hlutverki í sumar og það verður sérstaklega gaman að fylgjast með þeim og öðrum leikmönnum meistaraflokks kvenna næsta sumar.

Haukar klæðast Errea
Knattspyrnudeild Hauka hefur gert langtíma samning við íþróttavöruframleiðandann Errea fyrir keppnis- og æfingabúninga deildarinnar. Allir keppendur á vegum knattspyrnudeildar Hauka munu á næstu árum spila og æfa í búningum frá Errea. Sport Company ehf. er þjónustuaðili Errea á Íslandi.

Þorvaldur Ólafsson, framkvæmdastjóri Sport Company ehf og Ágúst Sindri Karlsson, formaður knattspyrnudeildar Haukar, undirrita samning um að Haukar spili í Errea.

Þorvaldur Ólafsson, framkvæmdastjóri Sport Company ehf og Ágúst Sindri Karlsson, formaður knattspyrnudeildar Haukar, undirrita samning um að Haukar spili í Errea.

Þjálfarar meistaraflokka karla og kvenna hjá Haukum.

Þá fagnar Knattspyrnudeild Hauka samningi við Samhenta hf. um að vera einn af aðal styrktaraðilum knattspyrnudeildarinnar. Samhentir er leiðandi þjónustufyrirtæki um heildarlausnir í umbúðum og öðrum rekstrarvörum. Samhentir verða þannig kynntir á öllum keppnisbúningum Hauka, hvort heldur sem er í barna- og unglingastarfi og á keppnisbúningum meistaraflokks karla og kvenna.