„BiRTU völlurinn“ er nýtt nafn á heimavelli Hauka að Ásvöllum

Birta-landsamtök og knattspyrnudeild Hauka hafa ákveðið að fara í samstarf og fær heimavöllur Hauka nýtt nafn, „BiRTU völlurinn“. Birta -landssamtök er félag foreldra og forráðamanna sem misst hafa börn eða ungmenni skyndilega. Tilgangur samtakanna og markmið er að standa fyrir fræðslu og ýmsum viðburðum á landsvísu, fyrir syrgjandi foreldra og fjölskyldur þeirra. Birta-landssamtök styðja félagsmenn sína með ýmsum hætti. Þar má nefna t.d. opin hús þar sem er veittur jafningjastuðningur en einnig eru veittir styrkir til m.a. sálfræðistuðnings og hvíldarvalar.

Á myndinni eru frá vinstri: Konráð Halldór Konráðsson (Birta), Gunnar Viðar Jónsson (Birta), Linda S. Birgisdóttir formaður Birtu Landsamtaka, Brynjar Viggósson form.knattspyrnudeildar og Guðjón M. Þorsteinsson Vallarstjóri knattspyrnudeildar Hauka.

 

„Birta-landssamtök eru þakklát Haukum fyrir að hugsa til okkar með nafnið á Birtuvellinum og þann velvilja að bjóða okkur til þessa samstarfs. Við bindum vonir við að samstarfið verði til þess að þeir sem þurfa á stuðningi okkar að halda, viti af samtökunum og leiti til okkar. Við höfum þá trú að íþróttastarf með börnum og ungmennum sé mikilvæg forvörn og öflug leið til heilsueflingar. Haukar
spila stórt hlutverk á þeim vettvangi.“

segir Linda S. Birgisdóttir formaður Birtu Landsamtaka.

„Knattspyrnudeild Hauka er afar þakklát fyrir samstarfið með Birtu-landssamtökum. Þá erum við mjög stolt að fá það stóra verkefni að vekja athygli á jafn mikilvægu félagi líkt og Birta-landssamtök eru og tilgangi þeirra. Ennfremur sérstaklega þakklát bakhjörlum knattspyrnudeildar Hauka sem lögð grunn að þessu samstarfi með Birtu-landsamtök og gerðu það mögulegt.

Enginn veit hvenær hið óvænta bankar upp á í lífinu, það er víst óhjákvæmilegur hluti af lífinu og þess vegna er mjög mikilvægt að félög eins og Birta-landssamtök séu til staðar. Við í Haukum munum gera okkar til að vekja athygli á Birtu-landssamtök og leggja okkur fram um að samstarfinu farnist vel; Birtu, Haukum og samfélaginu okkar til góða.“

Segir Brynjar Viggósson form.knattspyrnudeildar.