Staðfestir leiktímar fyrir undanúrslitin

Strákarnir í meistaraflokki karla í handbolta tryggðu sér sæti í undanúrslitum um Íslandsmeistaratitilinn þegar að þeir sigruðu Stjörnuna örugglega í oddaleik í Schenkerhöllinni. Mótherjar Hauka í undanúrslitum verður ÍBV en þeir unnu FH í 8-liða úrslitum nokkuð sannfærandi 2-0 í leikjum.

Þetta verður í 4 skiptið á síðustu 6 árum sem að liðin mætast í úrslitakeppni en ÍBV vann eftirminnilegan oddaleik um Íslandsmeistaratitilinn árið 2014. Haukar slógu svo ÍBV úr keppni í undanúrslitum 2016 3-1 í leikjum og enduðu svo á því að verða Íslandsmeistarar. Í fyrra mættust liðin einnig í undaúrslitum en þá sigruðu Eyjamenn nokkur örugglega 3-0 í leikjum og tryggðu sér svo Íslandsmeistaratitilinn í kjölfarið.

Það má því búast við hörku rimmu tveggja góðra liða en búið er að staðfesta leiktíma fyrir alla rimmuna. Fyrsti leikur er í Schenkerhöllinni þriðjudaginn 30. apríl kl. 18:00. Annar leikur í Vestmannaeyjum fimmtudaginn 2. maí kl. 18:30. Þriðji leikur er svo í Schenkerhöllinni sunnudaginn 5. maí kl. 16:00. Ef að fleiri leiki þarf þá verður 4. leikur í Vestmannaeyjum miðvikudaginn 8. maí kl. 18:30 og 5. leikur í Schenkerhöllinni laugardaginn 11. maí kl. 20:00.

Það er því tilvalið að skrá þessa daga í dagbókina því enginn vill missa af þessum frábæru handboltaleikjum. Við hvetjum því Haukafólk til að fjölmenna í rauðu til að styðja strákana áfram í baráttunni. Áfram Haukar!