Stórleikur næstu helgi – Fyrsti partur

Um næstu helgi fer fram heil umferð í N1 – deild Karla. Okkar strákar fá Valsmenn í heimsókn á Ásvelli á sunnudaginn klukkan 16:00 . Við erum því að tala um stórleik í Firðinum.

Á síðasta heimaleik, gegn HK var góð stemming í pöllunum og var nokkuð fjölmennt í húsinu, en það er ekki þar með sagt að það sé ekki hægt að gera betur. Því viljum við endilega að allir Hafnfirðingar og aðrir fjölmenni á leikinn og hvetji strákana til sigurs.

 Strákarnir okkar hafa verið að spila glimrandi bolta í undanförnum leikjum og sigrarnir hafa verið að láta sjá sig. Fjórir sigurleikir í röð og liðið er á toppi deildarinnar með 34 stig, og sex stiga forskot á næsta lið, sem er Fram.

Í þessari viku verður smá umfjöllun um leikinn hér á síðunni.  Og í dag, verður fyrsti liðurinn í því, en við fengum Elvar Geir Magnússon, blaðamann á Vísi.is, til að spá fyrir um leikina í 22.umferð N1 – deildarinnar.

 Fram – ÍBV : „ Framarar taka þetta örugglega með um tíu marka mun. Þeir hafa verið rekar sveiflukenndir að undanförnu en eru alltof stór biti fyrir ÍBV. Eyjamenn tóku smá dauðakippi í seinasta mánuði en hafa lagt árar í bát “

 Stjarnan – HK : „ Þarna fáum við alvöru leik og ég býst að það verði jafnt á öllum tölum. HK – ingar hafa verið frábærir í síðustu leikjum en ég hef samt á tilfinningunni að Stjarnan skori sigurmarkið. Björgvin Hólmgeirsson verður hetja Garðbæinga sem eru ákveðnir í að klára tímabilið af krafti eftir að hafa átt of marga dapra leiki í vetur. “

 Akureyri – Afturelding : „ Mosfellingar vita að ef þeir vinna ekki þennan leik þá bíður þeirra fall. Þeir mæta því dýrvitlausir til leiks. Það verður ekki spilaður fallegur handbolti í þessum leik en baráttan verður allsráðandi og dómararnir fá erfitt verkefni. Ég hef trú á því að heimavöllurinn muni ráða úrslitum í hörkuleik og Akureyri vinnur tveggja marka sigur. “

 HAUKAR – Valur : „ Haukar eru komnir í ansi þægilega stöðu en mega ekki sofna á verðinum. Ég spái því að Aron Kristjánsson minni leikmenn sína vel á leik þessara liða á Hlíðarenda fyrr á árinu. Það muni skila sér og einbeittir Haukar í hefndarhug fái bæði stigin úr leiknum. “

 Það er greinilegt að Elvar hefur trú á heimavöllum liðana, en hann spáir einungis heimasigrum.

 Í vikunni mun síðan halda áfram umfjöllun um leikinn stóra.

 

|  Haukar – Valur – Ásvellir – Sunnudagur – 16:00  |

    – Arnar Daði Arnarsson skrifar.