Stórleikur á fimmtudaginn, Haukar – HK

HaukarÁ fimmtudaginn næstkomandi verður sannkallaður stórleikur á Ásvöllum þegar Haukar og HK mætast í 1.deild karla í knattspyrnu. Leikurinn hefst klukkan 20:00.

Fyrir leikinn munar einungis tveimur stigum á liðunum, Haukar eru í 2.sæti með 16 stig en HK í því 4. með 14 stig.

Eftir tvö töp í röð í deildinni gerðu Haukar góða ferð í Fossvoginn og unnu Víking 3-1 í síðustu umferð þar sem Amir Mehica markvörður Hauka varði oft á tíðum glæsilega og var til að mynda valinn maður umferðarinnar á Fótbolti.net .

HK sigruðu einnig í síðustu umferð lið Aftureldingar, 1-0 á heimavelli. En í umferðinni áður töpuðu þeir gegn Fjarðabyggð. HK-ingum var spáð velgengni í deildinni í sumar og spáð upp af þjálfurum og fyrirliðum liðanna en eins og flestir vita féllu þeir úr Landsbankadeildinni í fyrra.  Þeim hefur þó ekki gengið eins vel og flestir spáðu og hafa tapað tveimur leikjum og gert tvö jafntefli, en 1.deildin í ár er óvenjujöfn og eru öll lið að stríða hvor öðrum og alveg ómögulegt að spá fyrir um úrslit í öllum leikjum í deildinni.

Dómari leiksins er af dýrari gerðinni en það er enginn annar en Kristinn Jakobsson færasti dómari landsins en honum til halds og trausts verða þeir  Sindri Kristinsson og Ingi Fannar Eiríksson.

Spáin er góð, það verður enginn kuldi á Ásvöllum og að sjálfsögðu verður logn á vellinum sjálfum. Samt sem áður eru litlar sem engar líkur á að sólin verði upp á sitt besta en við gerum bara eitthvað gott úr því. 

Með sigri í leiknum á fimmtudaginn er ljóst að Haukar verða í baráttu um sæti í Pepsi-deildinni að ári og það er auðvitað það sem Haukafólk vill. Fjölmennum því á völlinn á fimmtudagskvöldið og hvetjum strákana til sigurs.

Það er skemmtilegt að segja frá því að á fimmtudaginn er akkúrat ár liðið frá því að Haukar unnu HK í 16-liða úrslitum Visa-bikarsins, 1-0 en sigurmarkið skoraði enginn annar en Denis Curic. Og fleiri punktar úr þeim leik, en heilir fimm leikmenn sem byrjuðu þann leik spila ekki lengur með Haukum. Verður 2.júlí dagur Hauka aftur ?