Stórleikur á Ásvöllum á laugardag þegar Haukar mæta Þór

Haukar

Á laugardaginn verður sannkallaður stórleikur í 1. deild karla í knattspyrnu þegar Haukar taka á móti Þór Akureyri á Ásvöllum. Leikurinn hefst kl. 14.00.

Haukar eru með fjögur stig eftir tvo leiki en liðið sigraði Tindastól 2 – 0 í fyrstu umferð og gerði svo 0 – 0 jafntefli við Hött á Egilsstöðum sl. laugardag. Þórsarar hafa farið mjög vel af stað og innbyrt sex stig eftir fyrstu tvo leikina en liðinu var spáð 1. sæti í deildinni í spá Fótbolta.net. 

Daði Lárusson, markvörður Hauka, hvetur stuðningsmenn Hauka til að fjölmenna á leikinn enda sé um afar mikilvægan leik að ræða.  ,,Báðum liðum er spáð góðu gengi og þetta verður alvöru toppslagur,“ segir Daði sem kveður góða stemmningu í hópnum.  ,,Það er nokkrir að glíma við smá meiðsli en við vonum að sem flestir verði klárir þannig að við mætum til leiks fullir tilhlökkunnar“.

Félagsmenn í Haukum í horni eru sérstaklega hvattir til að mæta aðeins fyrir leik til að stilla saman strengi og þiggja veitingar í hálfleik.