Sjötta umferð Hellismótsins.

Sjötta umferð Hellismótsins var haldin í gær, mánudag, í húsakynnum Hellis. Fyrir umferðina var andrúmsloftið rafmagnað, spennan var það mikil. Mótið er opið upp á gátt og eru fleiri en tveir að bítast um sigurinn í mótinu. En snúum okkur að Haukamönnunum.

Fyrstan ber að nefna Stefán Frey Guðmundsson. Hann stýrði svörtu mönnunum gegn Halldóri Gunnari Haraldssyni. Í stuttri og snarpri skák vann Stefán Freyr sannfærandi og góðan sigur Nú er Stefán Freyr með fjóra vinninga og er enn í séns um gott sæti á mótinu.

Sveinn Arnarsson att kappi við skákþjálfarann Vigfús Ö Vigfússon (1885!). Sveinn var með hvítt. Í níunda leik fórnaði Sveinn riddara fyrir g og h peð svarts og opnaði kóngsstöðu þjálfarans upp á gátt. Hvítu mennirnir beindu, allir sem einn, spjótum sínum að svarta kónginum, eftir mikil uppskipti þurfti þjálfarinn að láta af hendi biskup fyrir tvö peð til að halda jöfnu. Úrslitin urðu sanngjörn 0,5 – 0,5.

Ingi Tandri Traustason fór út í grjótgarðinn á móti Ólafi Evert Úlfssyni. Ingi náði glimrandi góðri stöðu en í mjög erfiðu tímahraki og þungu endatafli, náði Ólafur að svíða fram vinning.

Staða Haukamann í mótinu er því þannig að Stefán Freyr er með 4 vinninga, Sveinn með 3,5 vinning og Ingi Tandri er með 2,5 vinning. Seinasta umferð mótsins verður haldin á morgun miðvikudag (25. feb).