Sigur í stórleik

Það var algjör stórleikur leikinn í Mýrinni í Garðabæ í kvöld er okkar menn heimsóttu Stjörnuna heim. Fyrir leikinn voru okkar menn efstir í deildinni með 17 stig en Stjarnan með 13 stig í 4. sæti en búnir að leika einum leik færra.

Það voru heimamenn sem byrjuðu leikinn betur og skoruðu fyrstu tvö mörkin, okkar menn skoruðu síðan næstu tvö mörk, síðan skoruðu heimamenn næstu tvö mörkin. Eftir það skoruðu okkar menn tvö mörk og einu marki betur en það og voru komnir yfir 5-4. Haukar voru alltaf einu skrefi á undan heimamönnum í leiknum og voru yfir 11-10 þegar um tvær mínútur voru eftir að fyrri hálfleiknum. Þá komu tvö mörk frá Stjörnunni og voru það síðustu mörk fyrri hálfleiks og staðan því í hálfleik 12-11 heimamönnum í vil.
Magnús Sigmundsson varði með ágætum í fyrri hálfleik, hátt í tug bolta og með smá heppni hefðu boltarnir geta verið fleiri sem Magnús hefði varið. Jón Karl var sjóðandi heitur á vítalínunni en í leiknum öllum skoraði hann 5 mörk úr vítum af 6 tilraunum.
Það var greinilegt í byrjun seinni hálfleiks að okkar menn vildu sigur í þessum leik og byrjuðu mjög vel og voru komnir yfir áður en allir áhorfendur leiksins sem voru þónokkrir væru komnir inn í sal. Á fyrstu tíu mínútum seinni hálfleiks fengu Haukar einungis á sig 3 mörk og voru komnir yfir 17-14. Í kjölfarið skiptu Stjörnumenn um markmann og kom Roland Valur Eradze í markið fyrir Hlyn Morthens og var landsliðsmaðurinn Björgvin Hólmgeirsson tekinn útaf hjá Stjörnunni enda átti hann þrjár arfaslakar sendingar í sókninni á skömmum tíma. Okkar menn voru ekki hættir og Gunnar Berg Viktorsson setti þrjú mörk á stuttum tíma, allt mjög örugg mörk sem Roland átti ekki séns í. Kári Kristján Kristjánsson var erfiður við varnarmenn sem og markverði Stjörnunnar og var með 100 % nýtingu og setti hann nokkur kvikindi þegar mest á reyndi. Haukar náðu alltaf að halda Stjörnunni nokkuð frá sér og var lítil hætta undir lokin enda Haukar ávallt 2-3 mörkum yfir.
Lokastaðan í leiknum var öruggur þriggja markasigur Hauka á Stjörnunni í Garðabæ. Afar góður og ekki síst mikilvægur sigur á þessu STJÖRNUprýdda liði Stjörnunnar.

Skotnýting

Andri Stefan  6mörk /8skot
KKK 5/5
Jón Karl 5/6*
Arnar Jón 4/12

Gunnar Berg 3/4
Þröstur 2/3
Gísli Jón 1/2
Freyr 1/3
Sigurbergur 1/4

* Öll úr vítum

Markvarslan;
Magnús Sigmundsson 11varin skot / 47 mínútur
Gísli Guðmundsson 5 / 13

Eftir leikinn eru strákarnir því komnir sex stigum á undan Garðbæingum. Þetta var sigur liðsheildarinnar en níu leikmenn komust á blað, leikmenn eins og Freyr Brynjarsson og Sigurbergur Sveinsson sem hafa verið einir af bestu leikmönnum liðsins náðu sér ekki almennilega á strik í sóknarleiknum en þá stigu aðrir upp með mikilli reisn. Mikill sómi í því.
Andri Stefan var drjúgur í sókninni og Kári Kristján engum líkur og náði góðri stemmingu í leikmennina jafnt sem áhorfendur, vel gert Kári. Eins og fyrr segir var Jón Karl sjóðandi heitur á vítalínunni þó svo eitt víti hafi farið forgörðum, það gerist á bestu bæjum.

 

Næsti leikur liðsins er í Eimskips-bikarnum á sunnudaginn gegn Val í Vodefone-höllinni á Hlíðarenda. Leikurinn hefst kl. 16. Það verður mikið um dýrðir á Ásvöllum þann dag en upplýsingar um þann leik verður gert betri skil þegar nær dregur.

– Arnar Daði Arnarsson skrifar.