Sigur á Fjarðabyggð/Leikni

HaukarHaukastelpur lögðu stöllur sýnar úr Fjarðabyggð/Leikni 3-1 á Ásvöllum á sunnudaginn. Leikurinn fór fram í ágætis veðri og hafði það ekki áhrif á gang leiksins ólíkt því sem var fyrir austan vikuna á undan þegar þessi sömu lið mættust í miklum rokleik.

Það voru gestirnir sem byrjuðu leikinn betur án þess þó að ógna Haukamarkinu að neinu viti. Eftir um korters leik fóru heimastúlkur hins vegar að komast meir inn í leikinn og sýna sitt rétta andlit hvað varðar spilamennsku úti á vellinum. Það var svo Kristín Ösp Sigurðardóttir sem skoraði fyrsta mark leiksins er hún tók niður frábæra stungusendingu Katrínar Guðmundsdóttur yfir vörnina og hamraði boltann neðst í markhornið. Glæsilegt mark og vel að verki staðið hjá þeim Kristínu og Katrínu.

Annað mark leiksins kom skömmu síðar og var það svo sannarlega af dýrari gerðinni. Hin kornunga Hildur Kristín Kristjánsdóttir, miðjumaður fædd 1996 í liði Hauka fékk þá boltann á miðjunni, fór með hann nokkra metra í átt að marki og hamraði honum svo í markvinkilinn af um 28 metra færi. Stórglæsilegt mark hjá þessari mjög svo efnilegu knattspyrnukonu.

Það sem eftir lifði hálfleiksins, sem voru um 15 mínútur slökuðu Haukastelpur svo aftur á og hleyptu gestnunum inn í leikinn að nýju, nokkuð sem þetta unga lið verður að læra að gera ekki þegar komið er í svona góða stöðu. En hálfleikstölur voru 2-0.

Seinni hálfleikur byrjaði keimlíkt þeim fyrri og var engu líkara en að heimaliðið héldi að seinni hálfleikur yrði auðveldur. Svo var þó aldreilis ekki því gestirnir skoruðu mark á 63. mínútu sem mikill heppnisstimpill var yfir en engu að síður verður ekki annað sagt en að Haukastelpur geti sjálfum sér um kennt að hafa hleypt Fjarðabyggð/Leikni inn í leikinn á þessum tímapunkti. 

Sem betur fer þó kviknaði á heimastúlkum við markið, það tók reyndar um 5 mínútur að ná sér af sjokkinu en svo tóku þær öll völd á vellinum og sáust bestu samspilskafla hjá liðinu í sumar á þessum síðustu 20 mínútum leiksins. Mörkin hefðu getað orðið 2-3 viðbótar en stelpurnar létu sér eitt nægja og það skoraði Hildigunnur „Solskjær“ Ólafsdóttir, sem hafði komið inn á skömmu áður, eftir stórglæsilegt samspil Haukaliðsins. Hildigunnur fékk þá boltann innan teigs vinstra megin og afgreiddi hann snyrtilega í netið eftir að þær Hildur Kristín Kristjánsdóttir, Sara Rakel Hinrikisdóttir og Kristín Ösp Sigurðardóttir höfðu splundrað vörn andstæðinganna með lipru spili.

Leiknum lauk með 3-1 sigri Hauka og eru þær nú komnar í þá stöðu að geta gert atlögu að sæti í úrslitakeppni 1.deildar þó svo að róðurinn verði þungur því fjórir næstu leikir eru einmitt gegn þeim fjórum liðum sem eru á sama svæði og okkar stelpur í deildinni.