Sigur á Þór á heimavelli

HaukarHaukar unnu fyrr í dag, 1-0 sigur á Þórsurum í 1.deild karla en leikurinn fór fram á Schenker-vellinum okkar, að Ásvöllum. Það var Enok Eiðsson sem smurði boltann upp í vinkilinn í fyrri hálfleik og það mark tryggði Haukum sannfærandi sigur í dag.

Næsti leikur Hauka er gegn Þrótti á Valbjarnarvellinum, næstkomandi fimmtudag klukkan 20:00. 

Það var Ásvalla-rok á vellinum og Haukar léku á móti vindinum í fyrri hálfleik, sköpuðu sér fá færi en einu færi leiksins voru þó Hauka. Enok hefði getað bætt við öðru marki sínu seint í fyrri hálfleik, eftir laglegan undirbúning Viktors Smára Segatta, en hitti boltann ílla og skot hans framhjá fjærstönginni. 

Í seinni hálfleik bætti í vindinn og bæði lið áttu í erfiðleikum með að hemja boltann innan liðsins, bæði lið vildu fá vítaspyrnu dæmda en í hvorugt skiptið sá dómari leiksins ástæðu til að dæma. Haukar vildu fá vítaspyrnu er varnarmaður Þórsara átti að hafa varið boltann á línu með hendinni eftir hornspyrnu og Þórsarar vildu síðan fá víti í uppbótartíma er Hilmar Trausti og Sveinn Elías leikmaður Þórsara lentu saman.

Sanngjarn sigur Hauka var þó staðreynd og þrjú gríðarlega mikilvæg stig í hús, og enn hafa Haukar ekki fengið mark á sig í sumar í heilar 360 mínútur. 

Meiðslalistinn er frekar langur hjá Haukum þessa stundina, Guðmundur Sævarsson og Guðmundur Viðar Mete eru enn meiddir og auk þeirra er Viktor Unnar Illugason, Valur Fannar Gíslason og Sverrir Garðarsson frá vegna meiðsla.

Alexander Freyr Sindrason og Gunnlaugur Fannar Guðmundsson spiluðu hinsvegar í hjarta varnarinnar í dag og voru líklega bestu menn vallarins. Framtíðin er svo sannarlega björt hjá Haukum.

Eins og fyrr segir er næsti leikur Hauka, næstkomandi fimmtudag gegn Þrótti, og við hvetjum að sjálfsögðu alla Haukamenn að fjölmenna á Valbjarnarvöllinn í Laugardalnum.

ÁFRAM HAUKAR!