Seiglan skilaði jafntefli

Freyr var hetja Hauka í dagFreyr Brynjarsson tryggði Haukum mikilvægt jafntefli gegn Valsmönnum að Hlíðarenda með marki fimm sekúndum fyrir leikslok. Niðurstaðan 20-20 og eru þessi KFUM lið því í tveimur efstu sætum deildarinnar, Valur með eins stigs forskot en Haukar eiga leik til góða. Hefði leikurinn tapast hefðu Valsmenn náð þriggja stiga forystu sem Haukar hefðu einungis átt kost á að minnka niður í eitt stig með sigri í leiknum sem liðið á inni. Leikurinn í dag var kaflaskiptur, hart var tekist á, og vörn og markvarsla voru í fyrirrúmi enda markaskorið hreint ótrúlega lítið. Mikið fjaðrafok skapaðist á lokasekúndunum því í kjölfar lokamarksins hljóp Freyr beinustu leið að miðjunni og tafði Valsmenn í að hefja leik að nýju, það fór í taugarnar á Fannari Friðgeirssyni sem grýtti boltanum í Frey, um leið og Óskar Bjarni óskaði eftir leikhléi. Dómararnir viku Frey að velli með rautt spjald en sendu líklega fyrir mistök rangan Valsmann að velli. Fannar Friðgeirsson átti síðasta skot að marki en Birkir varði og jafntefli staðreynd sem Haukamenn fögnuðu enda virtust öll stig töpuð þegar skammt var til leiksloka.

Leikurinn fór mjög hægt af stað. Björgvin Hólmgeirsson var sá eini sem virtist finna leiðina í netmöskva Valsmanna með nokkrum velvöldum þrumufleygum upp í markhornin. Valsmenn sem eru þekktir fyrir hraðan leik, hófu leikinn í öðrum gír og uppskáru eftir því auk þess sem Birkir varði ágætlega í byrjun. Eftir 15 mínútna leik var staðan 3-3, sem verður að teljast með ólíkindum. Þá var eins og bæði lið skiptu um gír, Valsmenn tóku að keyra hraða miðju en Freyr og Stefán Rafn Sigurmannsson virtust vel undir það búnir og voru snöggir til baka. Hörkunni óx sömuleiðis ásmegin og aðeins eitt mark skildi liðin að í hálfleik, 8-9, fyrir gestina.

Haukar skoruðu fyrsta mark seinni hálfleiks en þá skoruðu Valsmenn sex mörk í röð og komust í 14-10. Haukar áttu í miklum erfiðleikum sóknarlega, Valsmenn gengu vel út í Björgvin sem helsta skotógnunin stafaði af og náðu nokkrum hraðaupphlaupum þar sem Fannar og Arnór voru skeinuhættir eins og við var að búast. Valsmenn voru enn fjórum mörkum yfir 17-13 en þá tókst Haukum að minnka muninn í 18-17 og jafna 19-19 þegar einungis fjórar mínútur voru til leiksloka. Á þessum kafla tók Birkir Ívar að verja allt sem kom á markið, en Aron Rafn var farinn að hita upp á hliðarlínunni, Jónatan Jónsson skoraði nokkur mikilvæg mörk af línunni og Þórður Guðmundsson átti góða innkomu í vinstri skyttuna þar sem Sigurbergur hafði ekki verið skugginn af sjálfum sér allan leikinn. Einar Örn átti sömuleiðis ágæta spretti í hægri skyttunni á köflum í seinni hálfleik. Freyr Brynjarsson skoraði svo jöfnunarmarkið eins og áður segir þegar einungis 5 sekúndur voru eftir.

Mörk Hauka: Björgvin 5, Freyr 4, Gummi 3, Jónatan 3, Einar 2, Beggi 1, Heimir Óli 1 og Tóti 1.

 Fullt af myndum úr leiknum.