Sara Björk stjórnaði æfingu á Ásvöllum og áritaði Óstöðvandi

Okkar magnaða Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrirliði íslenska landsliðsins og leikmaður Wolfsburg, mætti á Ásvelli í gær og stjórnaði sameiginlegri æfingu 4. og 5. flokks kvenna. Þrátt fyrir nokkurt frost og vind, jólaböll og jólafrí hjá mörgum iðkendum var góð mæting á æfinguna enda stelpurnar ofur spenntar að hitta Söru Björk sem spjallaði við þær um mikilvægi svefns, mataræðis o.fl. í lok æfingarinnar.

Í kjölfarið var svo haldið inn í íþróttamiðstöðina á Ásvöllum þar sem Sara Björk áritaði bók sína Óstöðvandi þar sem hún segir frá fótboltaferlinum, allt frá Pæjumótinu til úrslitaleiks Meistaradeildar Evrópu. Stelpa úr Hafnarfirði sem lagði allt í sölurnar til að láta drauma sína rætast og verða ein besta fótboltakona heims. Einlæg og fallega myndskreytt frásögn um sigra og vonbrigði, átök utan vallar, samrýmda fjölskyldu og glímuna við kvíða.

Knattspyrnudeild Hauka þakkar Söru Björk innilega fyrir komuna heim á Ásvelli.

Sara Björk með hið frábæra Haukateppi ásamt Helgu Helgadóttur, yfirþjálfara yngri flokka kvenna.