Sara Björk Gunnarsdóttir kjörin Íþróttamaður ársins 2018

Sara Björk Gunnarsdóttir var í kvöld kjörin íþróttamaður ársins en hún var hlutskörpust í kjöri Samtaka íþróttafréttamanna, sem tilkynnt var um niðurstöður kjörsins við hátíðlega athöfn í Hörpu.

Sara Björk sem er 28 ára gömul leikur með Wolfsburg í Þýskalandi en hún er einnig landsliðfyrirliði íslenska landsliðsins í knattspyrnu. Hún varð í ár þýskalandsmeistari annað árið í röð með liði sínu Wolfsburg í Þýskalandi. En liðið komst einnig í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu þar sem það beið lægri hlut gegn franska liðinu Lyon í framlengingu. Sara átti stóran þátt í velgengni liðsins þar sem að hún er lykilleikmaður.

Sara Björk Gunnarsdóttir

Sara hóf knattspyrnuferil sinn hjá Haukum og var hún einungis 13 ára gömul þegar hún lék sinn fyrsta meistaraflokksleik fyrir félagið okkar. Hún á að baki 23 leiki fyrir meistaraflokk Hauka og skoraði hún í þeim 18 mörk. Það var öllum ljóst að hún var gríðarlegt efni og hefur hún margsannað sig sem fyrirmyndar íþróttamann bæði innan vallar sem utan.


Við erum gríðarlega stolt af Söru og árangri hennar. Félagið vill senda henni og fjölskyldu hennar innilegar hamingjuóskir með nafnbótina sem er fyllilega verðskulduð.

Áfram Haukar!