Sannfærandi sigur: Hanna með 18 mörk og Bryndís með 25 skot varin

Hanna skorar eitt af 18 mörkum sínum í leiknum í dag gegn FylkiHaukar unnu sannfærandi sigur á Fylkisstúlkum 30-22 en leiknum var að ljúka að Ásvöllum. Hanna Guðrún Stefánsdóttir fór hamförum í leiknum og skoraði 18 (9) mörk en hún lék allan leikinn fyrir utan. Bryndís Jónsdóttir átti stórleik í markinu og varði 25 skot. Haukastúlkur unnu því þriðja leikinn í röð og skipa sér í sveit efstu liða ásamt Val, Stjörnunni og Fram. Sigur Hauka var sannfærandi, þær börðust vel í vörninni og spiluðu skemmtilegan sóknarleik þar sem tíðar leikfléttur á milli tveggja leikmanna skiluðu mörgum mörkum. Hraðaupphlaupin voru einnig fyrirferðarmikil. Fullt af myndum úr leiknum.

Haukastúlkur hófu leikinn af miklum krafti og komust í 5-0 en þá vöknuðu gestirnir úr Árbænum. Heimaliðið leiddi þó allan fyrri hálfleikinn og höfðu þriggja marka forystu 15-12 í leikhléi. Um miðbik seinni hálfleiks skildu leiðir þegar Haukastúlkur skoruðu fjölmörg mörk í röð og komust í 28-20. Eftir það var aldrei spurning hvernig leikar færu. Hanna Guðrún Stefánsdóttir skoraði mörk í öllum regnbogans litum en hún lék ýmist í hægri eða vinstri skyttu og virtist kunna vel við sig. Hún hefur nú skorað 89 mörk í þeim níu leikjum sem liðið hefur leikið á þessu tímabili eða tæp 10 mörk að meðaltali. Ester Óskarsdóttir átti einnig skínandi leik og skoraði 6 mörk, þar af fimm í fyrri hálfleik. Þórunn Friðriksdóttir og Erla Eiríksdóttir léku í hægra horni og skoraði Þórunn þrjú mörk. Nína Arnfinnsdóttir og Ramune Pekarskyte gegndu lykilhlutverki í vörninni og fyrir aftan þær fór Bryndís Jónsdóttir mikinn og varði 12 og 13 skot í sitthvorum hálfleiknum.

 Hér má sjá fullt af myndum úr leiknum.