Sænska stórliðið GUIF sigraði örugglega á Hafnarfjarðarmótinu

Haukur Andrésson fyrirliði GUIF tekur við verðlaununum fyrir fyrsta sætiðUm helgina var leikið á hinu árlega Hafnarfjarðarmóti í handbolta. Alls tóku 4 lið þátt í mótinu að þessu sinni, Haukar, FH, Valur og GUIF frá Svíþjóð. Leikið var í íþróttahúsinu við Strandgötu. Mótið var hið skemmtilegasta og þrátt fyrir mikið blíðviðri alla mótsdagana var ágætlega mætt í Strandgötuna og fín stemmning. Sænska stórliðið GUIF vann alla sína leiki nokkuð örugglega en Íslandsmeistarar FH veittu þeim að vísu harða keppni í fyrsta leik mótsins en Svíarnir sigu fram úr í seinni hálfleik og innbyrtu sigur. Í leik Hauka og GUIF sýndu Svíarnir allar sínar bestu hliðar í vörn og markvarslan var frábær hjá þeim. Valsmenn sáu aldrei til sólar gegn GUIF og töpuðu með 8 marka mun. Lokaleikur mótsins var á milli Hauka og FH þar sem leikið var um 2. sætið og að sjálfsögðu um gamla góða heiðurinn. Haukar voru sterkari aðilinn í leiknum og unnun sanngjarnan sigur. Að venju var hart tekist á og á köflum voru dómarar leiksins ekki öfundsverðir af verkefninu en þeir gerðu mistök sem bitnuðu á báðum liðum.

Haukar eru með töluvert breytt lið frá síðasta keppnistímabili ásamt því sem Aron Kristjánsson er aftur tekinn við liðinu. Í mótinu var liðið oft á tíðum að gera mjög góða hluti, sérstaklega varnarlega. Birkir Ívar sýndi á köflum frábæra takta í markinu og Aron Rafn stóð sig einnig ágætlega. Stefán Rafn og Sveinn Þorgeirsson voru þeir sóknarmenn Hauka sem stóðu upp úr og Freyri Brynjarsson var traustur að vanda. Gylfi Gylfason er aftur genginn í raðir Hauka eftir 10 ár í atvinnumennsku. Hann var traustur í mótinu og mikið ánægjuefni fyrir Hauka að hann sé aftur genginn í okkar raðir. Hinn nýi erlendi leikmaður Hauka, Nemanja Malovic, náði sér ekki á strik sóknarlega en var sterkur í vörninni. Þarna er á ferð öflugur örvhentur leikmaður sem vonandi mun bara bæta sig hjá Haukum. Aron gaf ungum leikmönnum tækifæri í mótinu og nýttu þeir það vel.

Lokastaðan:

  1. GUIF      6 stig
  2. Haukar  4 stig
  3. FH         2 stig
  4. Valur     0 stig

Sport TV sýndi alla leikina í beinni og völdu lið mótsins í mótslok, sjá mynd.

Lið mótsins