Reykjanesmótið klárað, Bóbómótið næst á dagskrá

Haukar hafa lokið þátttöku í Reykjanesmóti karla en liðið spilaði fimm leiki í mótinu þar sem það sigraði einn leik en tapaði fjórum. Liðin sem tóku þátt í mótinu voru Stjarnan, Grindavík, Keflavík og Njarðvík, sem öll leika í Domino‘s deildinni og svo Haukar og Breiðablik sem leika í 1. deild.

Haukar unnu lið Breiðabliks sannfærandi 80-62 og sýndu að liðið ætlar sér stóra hluti í 1. deild eins og þeir hafa gefið út. Breiðablik er eitt af liðunum sem Haukar verða í mestri samkeppni um að endurheimta sæti sitt meðal þeirra bestu og því var þetta flottur sigur. Sigurinn hefði getað orðið stærri en slappur kafli í þriðja leikhluta gerði það að verkum að svo varð ekki.
 
Haukar töpuðu gegn Keflavík 103-109 eftir framlengingu en Haukar höfðu tvö tækifæri til að gera út um leikinn í lok venjulegs leiktíma. Það voru hins vegar Keflvíkingar sem voru sterkari í framlengingunni og unnu sex stiga sigur.

Liðið tapaði gegn Grindavík með sjö stigum, 66-73 , en í þeim leik höfðu Haukar tækifæri til að minnka muninn í tvö stig þegar að um hálf mínúta var til leiksloka, sem gekk ekki upp, og Grindvíkingar kláruðu leikinn á vítalínunni.

Gegn Njarðvík kom Hauka liðið til baka og kom sér inn í leikinn, eftir að hafa lent undir, með fjórum þriggja stiga skotum í röð. Þessi góði kafli gekk þó ekki eftir og tapaði liðið með fimm stigum 80-85.

Haukar áttu ekki erindi sem erfiði gegn Stjörnunni sem sýndu mátt sinn og megin gegn Haukaliðinu. Má segja að þetta hafi verið versti leikur Haukanna í mótinu og máttu þola 15 stiga tap, 70-85.

Haukaliðið hefur sýnt það í þessum leikjum, þó svo að um æfingarleiki sé að ræða, að liðið mun , ef einbeitingin og viljinn heldur út, fara mikinn í 1. deildinni í vetur. Leikir við liðin í Domino‘s deildinni hafa verið jafnir og spennandi verður að sjá hvernig liðinu vegnar í Lengjubikarnum sem hefst í október.

En undirbúningur liðsins er engan veginn hættur og taka Haukarnir þátt í en einu æfingarmótinu. Núna í kvöld mun liðið mæta Þór Þorlákshöfn í Bóbó-móti Hamars í Hveragerði og hefst leikurinn klukkan 20:15. Á föstudaginn mætir liðið Fjölni á sama tíma og svo á sunnudaginn spila þeir gegn heimamönnum í Hamri kl. 18:30.