Ræða á lokahófi handknattleiksdeildar Hauka

Þorvarður Tjörvi ÓlafssonLokahóf handknattleiksdeildar Hauka fór fram 12. maí síðastliðinn. Þorvarður Tjörvi Ólafsson, þáverandi formaður handknattleiksdeildar Hauka, flutti eftirfarandi ræðu við það tilefni: Kæru Haukafélagar! Eins og við sjáum glöggt þá hefur birtan heldur betur færst í aukana undanfarna daga og veturinn víkur nú fyrir vorinu og sumrinu. Eins og jafnan á þessum árstíðarskiptum söfnumst við Haukafólk saman og förum yfir nýliðið handknattleikstímabil. Og líkt og mörg undanfarin ár höfum við ríkulegt tilefni til að gleðjast yfir árangrinum. Haukar eru handhafar allra titla í meistaraflokki karla og strákarnir í 2. fl. eiga möguleika á glæsilegri tvennu sem væri nánast einstök í sögu félagsins. Við skulum því njóta þess í kvöld að líta yfir farinn veg, gleðjast yfir árangrinum og líta björtum augum til framtíðar. Það velkist enginn í vafa um það að árangur félagsins í ár er sögulegur, hann er um leið afrakstur mikillar vinnu marga undangenginna ára og okkur öllum hvatning um að halda áfram á sömu braut metnaðar og uppbyggingar sem við höfum fylgt undanfarin mörg misseri.

Kæru Haukafélagar!
Eins og við sjáum glöggt þá hefur birtan heldur betur færst í aukana undanfarna daga og veturinn víkur nú fyrir vorinu og sumrinu. Eins og jafnan á þessum árstíðarskiptum söfnumst við Haukafólk saman og förum yfir nýliðið handknattleikstímabil. Og líkt og mörg undanfarin ár höfum við ríkulegt tilefni til að gleðjast yfir árangrinum. Haukar eru handhafar allra titla í meistaraflokki karla og strákarnir í 2. fl. eiga möguleika á glæsilegri tvennu sem væri nánast einstök í sögu félagsins. Við skulum því njóta þess í kvöld að líta yfir farinn veg, gleðjast yfir árangrinum og líta björtum augum til framtíðar. Það velkist enginn í vafa um það að árangur félagsins í ár er sögulegur, hann er um leið afrakstur mikillar vinnu marga undangenginna ára og okkur öllum hvatning um að halda áfram á sömu braut metnaðar og uppbyggingar sem við höfum fylgt undanfarin mörg misseri.

Þótt við séum saman komin á lokahóf til að gera upp árið í handboltanum þá er tímabilinu ekki alveg lokið. Þannig á 2. fl. karla  eftir að leika til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn gegn liði Akureyrar og fer sá leikur fram á föstudaginn í Austurbergi. Strákarnir tryggðu sér deildarmeistaratitilinn eftir æsispennandi deildarkeppni þar sem liðið tapaði aðeins einum leik eftir áramót. Þrjú lið – Haukar, Akureyri og Selfoss – enduðu öll jöfn að stigum en Haukaliðið var sterkast í innbyrðisviðureignum þessara liða og hlaut því titilinn.  Strákarnir lögðu Stjörnuna síðan örugglega að velli í átta liða úrslitum og unnu frækinn sigur á FH í undanúrslitum í umdeildum leik í Strandgötunni eins og allir þekkja. Ég vil nota tækifærið og hvetja alla til að fjölmenna á leikinn á föstudaginn og styðja strákana til sigurs í leiknum gegn Norðanmönnum. Við höfum a.m.k. tvívegis leikið til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn í 2. fl. á undanförnum tveimur áratugum án þess að hafa borið gæfu til að sigra. Tók ég m.a. þátt í því á sínum tíma undir stjórn Arons Kristjánssonar. Strákarnir eiga því möguleika á að brjóta blað í sögu félagsins takist þeim að sigra á föstudaginn og ég tel þá hafa alla forsendur til að sigra enda höfum við aldrei átt jafn vel skipaða sveit ungra leikmanna á þessu aldursskeiði.

Meistaraflokkur kvenna hóf leiktíðina sem ríkjandi deildarmeistarar og með nánast óbreyttan hóp frá fyrra ári. Á fyrri hluta tímabilsins virtist bilið á milli liðsins og hinna þriggja liðanna í efri hlutanum, þ.e. Vals, Fram og Stjörnunnar, hafa breikkað umtalsvert frá fyrra ári en aukinn spenna færðist í leikina gegn Val og Fram og sigur vannst á Stjörnunni í tvígang eftir áramót. Liðið lauk keppni í fjórða sæti deildarinnar og datt út á móti sterku liði Vals í undanúrslitum, m.a. eftir framlengdan leik að Ásvöllum. Eins og menn vita stendur yfir vinna við að búa þannig um hnútana fyrir næstu árin að við séum að halda áfram á braut metnaðar og uppbyggingar sem við viljum vera á. Sú stefnumörkun þýðir að við viljum vera í fremstu röð en um leið byggja upp breiðan hóp ungra uppalinna leikmanna sem geta borið upp liðið. Félagið væntir mikils af nýráðnum þjálfara og þess fjölmenna hóps ungra leikmanna sem skipar meistara- og unglingaflokk félagsins. Ég vil hins vegar nota tækifærið til að þakka Díönu Guðjónsdóttur og Ægi Sigurgeirssyni fyrir þá eljusemi, metnað og félagsanda sem einkennir öll þeirra störf fyrir félagið. Ég dreg heldur enga dul á að sú ákvörðun að slíta samstarfinu um þjálfun meistaraflokks kvenna var þungbær og ég vona að félagið og þau muni eiga samleið í framtíðinni.

Markmið meistaraflokks karla fyrir þennan vetur voru skýr: Vinna allar keppnir innanlands og undir engum kringstæðum missa af bikarmeistaratitlinum sem hafði runnið mönnum úr greipum mörg undanfarin ár. Í stuttu máli þá tókst þeim þetta allt! Og það þótt blóðtakan fyrir tímabilið væri umtalsverð enda burðarásar horfnir á braut, m.a. Arnar Pétursson, Andri Stefan, Kári Kristján Kristjánsson og Gísli Guðmundsson. Í stað þeirra gengu þeir Björgvin Þór Hólmgeirsson og Guðmundur Árni Ólafsson til liðs við félagið auk þess sem Jónatan Ingi Jónsson snéri aftur eftir skamma vist í Fimleikafélaginu. Veruleg óvissa var því fyrir þetta tímabil um hvernig liðinu myndi reiða af jafn breyttu og raun bar vitni.

Byrjunin var brösótt. Sigur í fyrsta leik gegn Stjörnunni 16-17 þann 7. október! Tölur sem höfðu vart sést nema sem hálfleikstölur í u.þ.b. tvo áratugi. Fyrsta stóra verkefni liðsins var þátttaka í Evrópukeppni félagsliða þar sem fyrsti leikur var á útivelli gegn sterku pólsku liði Wisla Plock þann 10. október. Þar náði liðið mjög góðum árangri, tapaði aðeins með tveimur mörkum, og vann svo öruggan sigur gegn vængbrotnu pólsku liði á heimavelli sem hafði misst marga lykilmenn í meiðsli á milli leikjanna tveggja. Árangurinn í Póllandi var fyrsta teiknið frá liðinu um að það gæti náð verulegum árangri. Í næstu umferð mætti liðið ungverska liðinu Pler KC í tveimur leikjum á Ásvöllum. Jafntefli var niðurstaðan í fyrri leiknum og eftir mikla spennu tókst Einar Erni að tryggja Haukum sigurinn með marki á síðustu sekúndum seinni leiksins. Í 16 liða úrslitum Evrópukeppninnar mættum við sterku spænsku liði, Naturhouse La Rioja, og völdum að selja heimaleikinn til þess að ná betur endum saman hvað varðar kostnaðinn við þátttöku í keppninni. Á Norður-Spáni varð liðið að játa sig sigrað en þess má geta að La Rioja vann franska liðið Dunkerque í næstu umferð og tapaði naumlega samtals með þremur mörkum gegn Lemgo í undanúrslitunum eftir að hafa unnið fimm marka sigur á heimavelli. Haukaliðið getur því gengið hnarreyst frá þátttöku sinni í Evrópukeppninni og það er bjargföst trú mín að þátttakan hafi skipt sköpum fyrir liðið og þann árangur sem það náði í kjölfarið.

Fyrsti titillinn vannst á milli jóla og nýárs þar sem Tjörvi Þorgeirsson skoraði sigurmarkið á lokasekúndunni í úrslitum deildarbikarsins gegn Akureyri. Næst var komið að titlinum sem var lögð sérstök áhersla á fyrir tímabilið, þ.e. bikarnum. Hafnarfjarðarslagurinn 7. desember verður lengi í minnum hafður. Tvíframlengdur háspennuleikur þar sem þeir svarthvítu leiddu lengst af í venjulegum leiktíma og Einar Örn skoraði enn eitt flautumarkið sem tryggði Haukum framlengingu og kom í veg fyrir að Haukaliðið þyrfti að hverfa á braut í Kaplakrika með tap 29-28 í þriðja sinn á tveimur árum. Eftir tvær framlengingar vannst loks sigur 37-38. Eftir öruggan sigur gegn HK í undanúrslitum var komið að úrslitaleiknum í Höllinni gegn Val þar sem sigur Hauka var aldrei í hættu. Niðurstaðan 23-15 og bikarinn kom í Fjörðinn með þyrlu eins og 2007 væri enn ártalið á dagatalinu en þetta var í fyrsta skiptið í átta ár sem karlalið Hauka vann bikarmeistaratitilinn.

Þegar í byrjun mars var deildarmeistaratitillinn innan seilingar enda Haukaliðið einungis tapað einum leik fram að því þrátt fyrir það álag sem fylgir þátttöku í Evrópukeppni í október, nóvember og febrúar. Tapsleikjunum fór hins vegar fjölgandi í þriðja hluta keppninnar og endaði Haukaliðið einungis með þriggja stiga forystu á toppnum en þriðji titill tímabilsins var tryggður og um leið mikilvægur heimaleikjaréttur í úrslitakeppninni.

Eftir öruggan sigur 2:0 gegn HK beið úrslitaeinvígi um Íslandsmeistaratitilinn við Val. Það einvígi var hreint út sagt stórkostleg skemmtun fyrir alla handboltaunnendur og hefði ekki verið hægt að skrifa handritið betur. Byrjun einvígisins var brösótt. Sigur vannst í fyrsta leik á Ásvöllum á hreint ótrúlegan hátt og Valur vann sannfærandi sigur í öðrum leik. Veruleg umskipti áttu sér hins vegar stað fyrir þriðja leikinn. Annars vegar tókst þjálfurunum að kalla fram þá einbeittu sigurhugsun sem hefur fleytt liðinu svona langt í gegnum tíðina. Hins vegar spratt upp gríðarlega öflug sveit stuðningsmanna sem tók öll völd á áhorfendapöllunum. Valsdólganir, sem höfðu farið mikinn á fyrstu tveimur leikjunum, voru eins og vesæll drengjakór við hliðina á . Handritið minnti því á klassíska Hollywood-stríðsmynd þar sem hetjurnar eru komnar í vanda í viðureign við fjölmennt herlið þegar allt í einu birtist, fyrir frumkvæði fámenns hóps, óvænt fjölmenn HERSVEIT sem ríður baggamuninn í viðureigninni. Ég vil fyrir hönd handknattleiksdeildar þakka HERSVEITINNI fyrir þeirra þátt í Íslandsmeistaratitlinum. Þið skiptuð sköpum!

Oddaleikurinn síðastliðinn laugardag verður öllum þátttakendum ógleymanlegur. Önnur eins stemmning hefur aldrei ríkt á Ásvöllum og það eru forréttindi fyrir leikmenn beggja liða að hafa tekið þátt í annarri eins stemmningu þar sem allt er undir. Haukaliðið sýndi í þessum leik hversu miklir sigurvegarar þar eru á ferð og var sama hvar var komið niður, allir stigu upp, öxluðu ábyrgð og skiluðu sínu undir hámarkspressu. Aðrir, ég nefni engin nöfn, gerðu upp á bak. Í leiknum lagðist á eitt: einbeittur sigurvilji leikmanna, einstakur stuðningur áhorfenda, háværasti, besti og taktískasti tónlistaflutningur íslenskrar handboltasögu, dynjandi dramatík, mögnuð markvarsla og hljóðlát herkænska. Ég segi hljóðlát herkænska því margir telja að í einvígi sem telur fimm leiki sé fátt sem geti komið á óvart í leik hvors liðs. Aron og Óskar sýndu glögglega í síðasta leiknum að þeir áttu enn tromp upp í erminni sem gegndu lykilhlutverki í að skapa Valsliðinu veruleg vandkvæði við að skapa sér marktækifæri. Herkænskan skiptir því máli og það skiptir máli að vera með herforingja sem leggja rétta taktík á ögurstundu.

Kæru Haukafélagar

Eins og þið vitið þurfum við enn og aftur að sjá á bak leikmanna og þjálfara. Samkvæmt venju munu Haukar í horni færa þeim gjafir í þakklætisskyni hér á eftir. Kvennamegin er það auk þjálfaraparsins sem ég vék að áðan þau Ramune Pekarskyte, Erna Þráins og Nína Arnfinnsdóttir sem allar hyggjast sækja á önnur mið í Skandinavíu. Erna er að sjálfsögðu Haukamanneskja í húð og hár sem við óskum alls hins besta í Árósum og treystum því að hún komi aftur til okkar að námi loknu. Nínu þökkum við mjög góð störf undanfarin ár þar sem hún hefur sýnt að hún er einn sterkasti línumaður landsins. Saga Ramune er ótrúleg og minnir um margt á Petr Baumruk. Ramune hefur um árabil verið burðarás í liði Hauka og besti leikmaður deildarinnar. Hún hefur fest rætur hjá okkur og við viljum ekkert frekar en að sjá hana láta drauma sína rætast og fara í atvinnumennsku en vonandi koma fljótt aftur heim – til okkar.

Pétur Pálsson, einn allra besti leikmaður einvígisins gegn Val, ætlar að fylgja sinni heitelskuðu til Árósa og verður mikill missir af Pétri enda er þar á ferðinni ekki bara besti línumaður deildarinnar heldur ótrúlegur keppnismaður sem rífur áhorfendur og liðsfélaga sína með sér og er bestur þegar mest á reynir.

Sigurbergur Sveinsson, stórskytta okkar Haukamanna, og landsliðsfulltrúinn okkar, hverfur á braut í atvinnumennskuna til Dormagen. Sigurbergur, sem og öll fjölskylda hans, er svo samofinn Haukum að það er erfitt að sjá hann yfirgefa raðir okkar. Um leið fyllumst við stolti yfir árangri hans og hlökkum til að fylgjast með strandhöggi hans í þýsku deildinni. Það hafa verið forréttindi að fylgjast með örri framþróun Begga undanfarin ár og hann á veigamikinn þátt í þeirri velgengni sem liðið hefur átt að fagna undanfarin ár.

Ágætu Haukafélagar

Á vormánuðum var höggvið mikið skarð í okkar raðir þegar Helgi Sverrisson lést langt fyrir aldur fram. Mig langar að biðja viðstadda að rísa úr sætum og skála fyrir minningu Helga sem sýndi mikla eljusemi og ósérhlífni í störfum sínum fyrir félagið um langt skeið, á hverjum einasta leik sem fram fór, ætíð reiðubúinn að leggja sitt að mörkum fyrir Hauka.

Kæru Haukafélagar

Sá árangur sem við höfum náð á undanförnum árum, þrír Íslandsmeistaratitlar í röð og fjöldi annarra titla, er afurð starfa fjölda fólks. Að öðrum ólöstuðum er það þó einn maður sem ég vil fullyrða á meiri þátt í velgengni meistaraflokks karla en nokkur annar. Sá maður er að sjálfsögðu Aron Kristjánsson. Aron snéri til baka til félagsins þegar margt benti til þess að stórveldistíma félagsins frá aldamótum væri að líða undir lok. Liðið barðist fyrir lífi sínu í deildinni. Á einu ári snéri hann taflinu við. Allir þekkja glæstan árangur sem liðið hefur náð undir hans stjórn. Færri þekkja það mikla starf sem Aron hefur unnið í innviðum félagsins. Hann á ævarandi þakklæti skilið fyrir það starf sem hann hefur unnið við að koma Haukum á nýjan leik á sigurbraut og hefja félagið upp í þær hæðir sem það er nú í. Um ókomna tíð mun Haukafólk varðveita minninguna um þau störf sem þú hefur unnið í þágu félagsins okkar. Dagarnir hafa oft verið langir, verkin mörg og torfærurnar virst ókleifar. Með ótrúlegri eljusemi, þekkingu og fagmennsku hefur Aroni hins vegar tekist að breyta áskorunum í árangur og hindrunum í sigra. Mig langar fyrir hönd Hauka að þakka Aroni fyrir störf sín í þágu Hauka og biðja viðstadda að rísa úr sætum og klappa fyrir hetjunni okkar.

Kæru Haukafélagar

Það eru tímamót í félaginu okkar. Nýir þjálfarar taka við stjórnartaumunum í meistaraflokksliðunum og ungir leikmenn munu axla enn meiri ábyrgð á komandi leiktíð. Það mun sömuleiðis verða skipti í forystu deildarinnar þar sem sá sem hér stendur ætlar að flytjast til Danmerkur og fara í doktorsnám í hagfræði. Félagið okkar hefur hins vegar oft áður tekist á við áþekkar breytingar og risið sterkara upp í kjölfarið. Mig langar því að nota þetta tækifæri til að þakka fyrir að fá að vera samferða ykkur öllum á þeirri ótrúlegu vegferð sem við höfum átt saman undanfarin tvö ár. Það hafa verið forréttindi að fá að leiða þetta starf, starf þar sem ósérhlíf sveit sjálfboðaliða, stuðningsmanna, starfsfólks og leikmanna myndar sterka heild sem skapar þann glæsta árangur sem við erum samankomin til að fagna í kvöld. Ég veit að Haukar munu áfram feta þá braut metnaðar og uppbyggingar sem hefur fært okkur í þá stöðu sem við erum í dag. Stórveldi í íslenskum handknattleik. Takk fyrir samveruna að sinni og skál fyrir ykkur öllum.

Áfram Haukar!