Pistill frá þjálfara mfl.kvenna

Ágæta Haukafólk nær og fjær!

Nú er árið 2004 gengið í garð. Ég vil byrja þennan pistil á að óska ykkur öllum gleðilegs árs og þakka í leiðinni fyrir þau gömlu.

Það var ljóst á vormánuðum 2003 að miklar breytingar væru framundan hjá meistaraflokki kvenna. Sterkir leikmenn voru á förum frá félaginu ýmist á leið á aðrar slóðir eða einfaldlega hættar. Við blasti tímabil uppbyggingar. Okkar ágæti klúbbur stóð frammi fyrir svipaðri stöðu og t.d. Stjarnan fyrir fjórum árum síðan. Kynslóðaskipti og endurnýjun með tilheyrandi vaxtarverkjum voru óumflýjanleg.

Máttarstólpinn og fyrirliði liðsins Harpa Melsted var eini leikmaður byrjunarliðsins frá s.l. keppnistímabili sem var eftir í leikmannahópnum. Meiðsli leikmanna voru og áhyggjuefni og þegar ákveðið var að sækja tvo leikmenn út fyrir landsteinana varð Sandra Anulyte að bíta í það súra epil að mega ekki leika fyrr en í fyrsta lagi eftir áramót.

Æfingar hófust í maí. Ekki mættu margar stelpur á sumaræfingar og einungis 4-6 leikmenn æfðu reglulega fram til 20. júlí. Endanlegur hópur kom fyrst saman 6.ágúst.

Haustönnin gekk vonum framar. Liðið óx með hverjum leik og varð aðeins fyrir einu slæmu áfalli í leik geng Í.B.V. á útivelli sem tapaðist illa. Annars tókst að vinna RVK-open og komast í undanúrslit bikars auk þess sem liðið var í 3 sæti deildarinnar um áramót. Árið endaði mjög vel á góðum útisigrum gegn Val og Víking. Má segja að liðið hafi verið talsvert á undan áætlun og þær góðu fréttir bárust að Sandra fengi íslenskan ríkisborgararétt og yrði lögleg strax eftir áramót. Þegar hér var komið við sögu tóku æðri máttarvöld stjórnina í sínar hendur. Harpa Melsted tilkynnti okkur þau ánægjulegu tíðindi að von væri á nýjum Haukara með vorinu og af þeim sökum myndum við ekki njóta krafta hennar innan vallar á næstunni. Skarð hennar er vandfyllt en við munum öll gera okkar besta til að árangur vorannarinnar verði okkur til sóma. Nýr fyrirliði liðsins er Ragnhildur Guðmundsdóttir.

Útlendingarnir tveir Ramune og Kristina hafa staðið sig prýðilega. Þetta eru ungar og hæfileikaríkar stelpur sem voru fengnar til að hjálpa nýju liði af stað. Þær hafa fallið ágætlega inn í hópinn og verið að spila vel, sérstaklega ef miðað er við að þetta er þeirra fyrsta ár í nýju umhverfi. Martha Hermanns og Anna G. Halldórsdóttir hafa sömuleiðis fallið fljótt og vel inn í Haukafjölskylduna og eru að standa sig vel innan vallar sem utan.

Nú er nýtt ár gengið í garð. Framundan eru spennandi verkefni eins og undanúrslit í bikar. Stuðningur ykkar hefur verið okkar vopn í gengum súrt og sælt. Vonandi styðja Haukarar við bakið á okkar unga liði í komandi átökum.

Haukakveðja,
Ragnar Hermannsson, þjálfari mfl. kvenna.