Pétur: Verður verðugt verkefni fyrir Örn og Davíð

Það er vonandi að það verði húsfyllir í kvöld á Ásvöllum þegar Höttur mætir í heimsókn og spilar við Hauka í 1. Deild karla í körfunni. Höttur situr sem stendur í efsta sæti 1. deildar ásamt KFÍ sem að Haukar töpuðu fyrir síðustu helgi.

Pétur Ingvarsson þjálfari Hauka segir það verði verðugt verkefni að stöðva Kevin Jolley sem hefur verið drjúgur fyrir Hattarmenn í þessum fyrstu leikjum.

„Þeirra sterkasti leikmaður er Kevin Jolley en hann bæði skorar mikið og tekur öll fráköst. Það verður því verðugt verkefni fyrir Örn og Davíð að kljást við hann en ef við náum að nýta breiddina í okkar liði með því að spila stífa vörn í 40 mín. og fá auðveldar körfur í kjölfarið þá eigum við möguleika á að landa sigri“ sagði Pétur þegar heimasíðan heyrði í honum nú fyrir stuttu.

„Þetta er mjög mikilvægur leikur fyrir okkur. Höttur eru í efsta sæti 1. deildar ásamt KFÍ sem við töpuðum fyrir um síðastliðna helgi þannig að við verðum að mæta tilbúnir og vonandi fáum við góðan stuðning úr stúkunni“ bætti Pétur við.