Öruggur sigur fyrir norðan

Egill og Einar Pétur skoruðu báðir 4 mörk gegn Akureyri. Mynd: Eva Björk

Egill og Einar Pétur skoruðu báðir 4 mörk gegn Akureyri. Mynd: Eva Björk

Meistaraflokkur karla í handbolta lék í gær gegn Akureyri fyrir norðan í 4. umferð Olís deildar karla. Fyrir leikinn voru Haukamenn með 4 sigur úr 3 leikjum á meðan heimamenn voru stigalausir og ljóst var að þeir myndir mæta grimmir til leiks á sínum heimavelli.

Haukar mættu til leiks staðráðnir í að bæta upp fyrir tapið gegn ÍBV um síðustu helgi og komust þeir fljótlega í 4 – 1 en þá komust heimamenn betur inn í leikinn og voru þeir búnir að jafna leikinn í 8 – 8 eftir um 15 mínútna leik.

Eftir það sýndu Haukamenn hvers þeir eru megnugir og þéttu vörnina og gáfu í og var staðan í hálfleik 14 – 9 Haukum í vil. Haukamenn skoruðu svo 6 af fyrstu 7 mörkum seinni hálfleiks og staðan eftir um 10 mínútna leik í seinni hálfleik 20 – 10 Haukamönnum í hag. Heimamenn náðu svo aldrei að minnka muninn og sigldu Haukamenn öruggum sigri í hús 28 – 19 og skipti það ekki miklu máli þótt að þeir sem minna hafa fengið að spila í vetur komu inn á því þeir stóðu sig vel og héldu í horfinu og gott betur en það.

Flottur sigur á erfiðum útivelli staðreynd en eins og svo oft áður var það vörn og markvarsla Haukaliðsins sem skóp sigurinn einnig var flæðið í sóknarleiknum allt annað en gegn ÍBV í seinasta leik. Besti maður Haukamanna í leiknum var Giedrius í markinu en hann endaði með 17 skot varin eða um 59% markvörslu en atkvæðamestur Haukamanna í leiknum var Elías Már með 6 mörk og á eftir honum komu þeir Egill, Einar Pétur og Tjörvi allir með 4 mörk.

Næsti leikur hjá strákunum er strax á mánudaginn, 28. september, þegar Fram kemur í heimsókn í Schenkerhöllina. Við minnum einnig á sameiginlegt stuðningsmannakvöld handboltans og körfuboltans í kvöld, föstudagskvöldið 25. september, en dagskráin hefst eftir leik Hauka og Fjölnis í meistraflokki karla í körfubolta en hann hefst kl. 19:15. Sem flestir eru hvattir til að mæta og gera sér glaðan dag í góðra vina hópi en enginn aðgangseyrir er í kvöld. En hægt er, fyrir þá örlátu, að veita frjáls framlög á barnum til Haukar-TV og mun allur ágóði kvöldsins mun fara í að kaupa tæki fyrir Haukar-TV.