Orð í tíma töluð.

Grein frá Arnari Gunnarssyni.

  • Allt þetta tal um handbolta sem jaðaríþrótt er orðið þreytt. Til að réttlæta slíkt tal er allt eins hægt að ræða um allar greinar í heiminum nema fótbolta sem jaðaríþróttir. Handbolti er t.a.m. mun yngri grein en fótbolti og körfubolti og því er ekkert óeðlilegt að færri stundi þá grein á heimsvísu. Handbolti var lengi vel nær eingöngu stundaður í Evrópu. Handbolti er hinsvegar í sókn hvarvetna, hvort sem er í Evrópu eða annars staðar. Nægir að nefna að Austur-Evrópa er að ná vopnum sínum aftur, gömlu Júgóslavíuþjóðirnar blómstra, Hvít-Rússar að verða betri og lið frá Suður-Ameríku hafa staðið sig vel á síðustu HM keppnum. Sem dæmi Argentína og Brasilía. Það þarf ekkert svakalegt átak til að fylgjast með þessari þróun.
  • Greinin vísar í vinsældir íþrótta og notar þar ákveðna síðu til þess. Listinn sem notaður er er unnin út frá 16 löndum. Það er t.d. ekkert land af Skandinavíu á listanum. Þess ber líka að geta að löndin skora 50/50 út frá stærð og fjölda. Þannig að land eins og Ástralía skorar afar hátt. Sá er stjórnar þessari síðu segir m.a. sjálfur að listinn sé alls ekki algildur og hann sé enn í þróun. Er það í alvörunni faglegt að vísa í svona lista?
  • Miðað við það sem ég les úr greininni hafa fótboltamenn æft handbolta á veturna. Ha? Héldu knattspyrnumenn handbolta uppi hér áður? Hverjir þá? Nú hef ég fylgst mjög lengi afar vel með og það voru örfáir er stunduðu báðar greinar og sjaldnast voru það nú þeir sköruðu fram úr. Var Arnór Guðjohsen í handbolta? Var Alfreð Gíslason í fótbolta? Um 30 ár eru liðin frá þessari hefð ef einhver var, að leikmenn stunduðu mikið til báðar greinar.
  • Síðustu 10-15 ár hefur Ísland á vissan hátt verið knattspyrnuvætt, og það fyrir skattfé. Fótboltahallir, fótboltavellir, gervigrasvellir og sparkvellir. Af hverju? Af hverju eru ekki útihandboltavellir? Af hverju er ekki handbolta – og/eða körfuboltahús á Íslandi?

Mér er til efs að fólk geri sér almennt grein fyrir því að HSÍ er á undanþágu að spila landsleiki í Laugardalshöll. Húsið stenst ekki alþjóðkröfur. Þarna er einhver skekkja.

  • Launamál virðast skipta miklu máli þegar rætt um afreksmenn eða ekki. Það er hrein og klár staðreynd að ekki bara laun drífa leikmenn, það er mun meira sem það gerir. Ég hef þjálfað handboltakrakka á öllum aldri í nær 20 ár og þori að fullyrða að það sem skiptir þau mestu máli er ástríða fyrir því sem þau eru að gera.

Gylfi Þór Sigurðsson er efstur á lista yfir launahæstu Íslendinga í íþróttum, á eftir honum koma þrír aðrir fótboltamenn; Alfreð Finnbogason, Kolbeinn Sigþórsson og Viðar Örn Kjartansson. Þessir þrír á eftir Gylfa eru með lægri laun en Gylfi til samans. Miðað við það sem greinin virðist gefa í skyn varðandi laun, hljóta þessir þrír að vera algjörir aular miðað við Gylfa.

Launamálin eru rædd á þeim forsendum að handbolti sé „illa launuð jaðaríþrótt“. Það þykir þá lélegt að vera með 40-50 milljónir ísl.kr. á ári í laun, sjálfur myndi ég sætta mig við þau laun. Aðeins einn körfuboltamaður er á listanum og er hann með afar lág laun ef við miðum við það sem gengur og gerist í körfunni. Er þá Jón Arnór lika jaðaríþróttamaður?

Nei, þetta er ekki boðlegur málflutningur.

  • Það er ljóst að efsta deild í handbolta er auðvitað ekki eins sterk í dag og hún var fyrir u.þ.b.15-20 árum. Deildirnar í körfu og fótbolta eru það reyndar ekki heldur. Handboltafólki hefur ekki tekist að tala deildirnar upp líkt og hinar tvær greinarnar gera.

Hvers vegna var deildarkeppnin sterkari? Vegna þess að fyrir 20 árum, er Valur og KA léku til úrslita var allt landsliðið að leika heima, og allir hinir líka sem voru að banka á dyr landsliðsins. Þá voru líka okkar helstu þjálfarar heima að þjálfa. Eigum við að ímynda okkur gæði deildarinnar í dag ef allir væru hér heima, að spila og að þjálfa?

Af hverju voru allir hér heima?

Ein ástæðan er að laun voru ekkert sérstök í atvinnumennskunni og menn voru að fá svipuð laun í vinnum þeirra heima. Handboltinn er ekki meira hnignandi en svo að laun hafa margfaldast og leikmenn fara út í mun meiri mæli en áður. Taldi ég saman um 80 nöfn íslenskra leikmanna og þjálfara sem hafa að atvinnu að hafa spila annars staðar en á Íslandi. Þetta eru um 10 byrjunarlið. Þá eru ótaldir allir leikmenn sem farið hafa út í nám, spila sem hálfatvinnumenn eða hafa fengið vinnu og spila svo handbolta. Óhætt er að fullyrða að fjöldi leikmanna og þjálfara í útlöndum er á annað hundrað.

Ísland á topp 20-ára landslið á heimsvísu og leikmenn í efstu deild sem munu án vafa fara út sem atvinnumenn á þessu ári eða þeim næstu. Slökum aðeins á, það er ekki heimsendir handboltans í nánd.

Skoðum þetta aðeins.

Árið 1990 var Ísland svo gott sem dautt í handbolta, Alfreð Gísla og co. hættir og svartnætti framundan. 1992 náði liðið þó 4.sæti á Ólympíuleikunum í Barcelona. 1993 náðist fínn árangur á HM í Svíþjóð. Tveimur árum síðar átti liðið slakt mót á HM á Íslandi. Við það urðu miklar breytingar og heimsendir handan hornsins. 1997 HM í Kumamoto, 5.sæti. Ísland var ekki á EM 1998 og ekki á HM 1999 og jú, svartnætti framundan.

Ísland átti ekki góð mót árin 2000 og 2001 og allt var að fara til fjandans. 2002 EM í Svíþjóð 4.sæti. 2003 í Portúgal á HM, 7.sæti. Eftir fylgdu frekar slök mót næstu árin og nú var liðið svo sannarlega komið á endastöð. 2007 náðist þó fínn árangur á HM í Þýskalandi, 8.sætið sem tryggði okkur undankeppni til að komast á Ólympíuleikana 2008. EM 2008 í Noregi var fremur slakt mót og um vorið sama ár mistókst Íslandi að tryggja sig inn á HM 2009. Sama haust, í Peking, silfur.

Em 2010 náði liðið í brons. HM 2011 var ágætt mót, 6.sæti sem er annar besti árangur liðsins á HM. EM í Serbíu 2012 náðist 10.sæti (einu sæti á undan Frökkum) og ári síðar 12.sæti á HM. 2014 var frábært EM, og náðist 5.sætið. Síðust tvö mót hafa svo verið frekar slök af hálfu okkar manna. Í ljósi sögunnar er að mínu mati ekki um svartnætti að ræða.

Í öllum bænum hættum ræða um hnignum deildarinnar eða landsliðsins, hættum að ræða um ruslflokka, heimsendi og svartnætti.

  • Það mæta fleiri á fótboltaleiki að öllu jöfnu. KSÍ gerði átak á sínum tíma og fór að tala upp (það sem ekkert er að mínu mati) og það skilaði sér. Fór í samvinnu við Landsbankann og það skilaði sér m.a. í að fólk er farið að halda að Messi sé mættur í Kaplakrika. Engu að síður hafa sést lágar tölur í leik í efstu deild í fótbolti. Karfan spilar í mjög litlum húsum sem auðvelt er að fylla. Við verðum að setja hlutina í samhengi, ef setið er í Kaplakrika á handboltaleik í 1/3 áhorfendastæða, eru um 1000 manns á leiknum.
  • Dominoskvöld körfuboltans er flott og því er vel stýrt. Það horfa reyndar ekki margir á þættina. Sumir kíkja á klippurnar sem margar eru skemmtilegar en fáir horfa á þáttinn í heild. Þetta er mín tilfinning eftir spjall við fjölmarga íþróttaáhugamenn. Umtalið er aftur á móti jákvætt og það skiptir vissulega miklu máli. Það er svo alls ekkert víst að þessi þáttur verði áfram á dagskrá á næstu leiktíð. Það eru miklar breytingar í gangi og í vændum á 365. Þær vinsældir sem körfubolti hefur á Íslandi stafar að miklu leyti af NBA en ekki vegna þess að efsta deildin er svona stórkostleg.
  • Líkamlegt atgervi handboltamanna er orðið þreytt umfjöVitnað er í Gaupa, sem því miður, ansi margir telja að sé einhver sérfræðingur um handbolta. Rifjað er upp er Gaupi tjáði sig um að handboltamenn væru ekki í formi, en eins og venjulega rökstyður Gaupi það ekki og þá er varla hægt að ætlast til að greinahöfundur geri slíkt hið sama.

En fyrst menn vilja leika þennan leik, líkamlegt atgervi fótboltamanns vs handboltamanns. Vinnukröfugreiningin á þessum tveimur greinum er alls ekki sú sama. Nenni ég ekki að tæpa á því en allir sem eitthvað hafa fylgst með íþróttum vita þetta. Það er í raun afar mikil heimska að bera líkamlegt atgervi þessara tveggja greina saman.

Eða, ætti ég að gagnrýna fótboltamann fyrir að vera ekki líkamlega sterkur? Að þeir geti ekki tekið 150kg+ í clean-i? Þeir eru slakir í bekkpressu miðað við handboltamann, öss það gengur ekki!

Nei, þessi málflutningur er ekki boðlegur.

Eru einhverjir af bestu leikmönnum landsliðsins í handbolta ekki í formi? Er einhver af bestu leikmönnum efstu deildar hér heima ekki í formi?

Voru Heimir Guðjóns, Bjarni Guðjóns, Björgólfur Takefúsa, Hörður Magnússon, Mihajlo Bibercic osfrv í svona klikkuðu formi? Eða Maggi í körfunni og fleiri?

Þetta er þreytt og ekki boðlegur málflutningur.

  • Á sínum tíma kom Ólafur Stefánsson með afar áhugaverða en að mínu mati heimskulega pælingu um að fá Hlyn Bæringsson til að fara í handbolta, vegna þess að landsliðið þyrfti svona mann. Að mínu mati er Hlynur fábær íþróttamaður en þetta hefði auðvitað aldrei nokkurn tímann gengið. Það að Óli Stef fái hugmynd þýðir ekki að hún sé góð og það hafi verið borðleggjandi að Hlynur væri núna hornsteinn íslensks handbolta eins og greinahöfundur virðist halda. Ólafur Stefánsson fær ekki alltaf góðar hugmyndir, við sjáum það t.d. á varnarleik Íslands á EM núna í Póllandi. Ólafur er maðurinn á bak við varnarleik íslenska liðsins.

 

  • Niðurlag greinarinnar slær svo öll met. Það er skilnaður á milli þjóðar og handboltans!

Á facebook fær síðan „Strákarnir okkar“ 38þúsund geðfellingar á meðan KSÍ fær 28þúsund. Auðvitað er ekki hægt að alhæfa út frá þessum tölum (eins og ég hef einhvern tímann heyrt) en þetta segir okkur amk það að þjóðin elskar þetta landslið.

Ísland lék tvo leiki við Portúgal í byrjun janúar, fullur Kaplakriki í bæði skiptin, í æfingaleikjum. Allt tal um að ekki hafi verið áhugi fyrir þessu móti er barnalegt.

Þjóðin er ekki að yfirgefa „Strákana okkar“, greinahöfundur má gera það kjósi hann svo en þjóðin er ekkert að fara. Þjóðin getur nefnilega stutt öll landslið Íslands, óháð íþrótt og kyni. Þjóðin styður Ísland. Ég sem handboltaþjálfari get stutt íslenska landsliðið í körfu- og fótbolta.

Kannski er það ekki fyrir alla?

kv.Þorgeir Haraldsson Formaður Handknattleiksdeildar.